Karlmaðurinn sem fluttur var slasaður með sjúkraflugi eftir bruna í Hafnarstræti 37 á Akureyri í fyrrakvöld er látinn. Hann lést seinnipart gærdags á gjörgæsludeild Landspítala, er segir í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra. Hann var 67 ára gamall.

Vettvangsrannsókn á upptökum brunans fór fram í gær af tæknideild lögreglu. Að sögn lögreglu er rafmagnstæki meðal þess sem tekið verður til frekari skoðunar. Að öðru leiti sé rannsóknin á frumstigi og ekki unnt að veita frekari upplýsingar.

Allt tiltækt slökkvilið var kallað út á þriðjudag þegar tilkynning barst um eldinn og var einum bjargað úr húsinu þar sem hann lá meðvitundarlaus.

Karlmaðurinn var þá fluttur í alvarlegu ástandi á Sjúkrahúsið á Akureyri og síðar fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur á Landspítala.

Slökkvilið náði tökum á eldinum síðar á þriðjudagskvöld en timburhúsið er talið gjörónýtt. Um er að ræða þriggja hæða íbúðahús sem var byggt árið 1905 og er það eitt elsta hús bæjarins.

Vísir greindi frá því í dag að slökkvilið hafi aftur verið kallað út að húsinu nú í morgun þegar eldur blossaði þar upp á ný. Talið er að eldur hafi kviknað út frá glæðum í húsinu um klukkan tíu í morgun. Að sögn slökkviliðs tókst að slökkva eldinn um tuttugu mínútum seinna. Til stendur að rífa húsið á næstu dögum.

Fréttin hefur verið uppfærð.