Katrín Jakobs­dóttir, for­maður Vinstri­hreyfingarinnar – grænt fram­boð, segist halda á­kveðinni hefð í kringum kjör­dag en þetta eru sjö­ttu al­þingis­kosningarnar þar sem hún er í fram­boði. „Fyrir mér er þetta rosa­lega há­tíð­legur dagur því það er svo mikil­vægt að fara að kjósa,“ segir hún.

„Það er alltaf góður morgun­matur svo maður endist út daginn,“ segir Katrín. „Svo er það að fara á milli kosninga­skrif­stofa og hitta fólk. Auð­vitað byrja ég samt á því að fara að kjósa og svo fara í þennan rúnt. Svo tek ég alltaf smá hlé áður en kvöld­hasarinn byrjar.“

Í kvöld ætlar Katrín að verja tímanum sínum í Iðnó á­samt flokks­fé­lögum sínum en hún mun líka heim­sækja bæði Stöð 2 og Rúv.

„Svo fer ég bara heim. Ég sofna yfir­leitt snemma. Maðurinn minn vekur mig ef það er eitt­hvað mjög mikil­vægt að gerast. Svo tek ég bara stöðuna þegar ég vakna,“ segir Katrín.

Katrín segist vera mjög spennt fyrir kvöldinu og hefur haft gaman af deginum fram til þessa. Það var aldeilis nóg um að vera hjá henni á kosningakaffinu og átti blaðamaður í erfiðleikum við að ná af hana tali þar sem hún var umkringd fólki.

„Við erum annars vegar að tala við fólk sem er búið að kjósa og er bara að koma og fá sér kaffi og köku en svo eru aðrir sem eru enn ó­akveðnir,“ segir Katrín.

Þá segir Katrín vera mjög á­nægð með þá góðu kjör­sókn sem hefur verið fram til þessa, bæði í dag og í utan­kjör­fundar­at­kvæða­greiðslum. „Mér finnst svo öfunds­vert að búa í landi þar sem er svona góð þátt­taka,“ segir hún.