Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir frá því í færslu á Facbook að maðurinn sem á að hafa hótað forsætisráðherra á Seyðisfirði í dag hafi haft samband við sig.

„Ég fékk símhringingu frá þessum manni. Honum var augljóslega mikið niðri fyrir út af ástandinu en útskýrði það í mjög skýru máli hver vandinn var. Hvernig haldinn hafði verið fundur fyrir um tveimur árum síðan þar sem var varað við aurskriðum. Hvernig átti að fylgjast með aðstæðum og láta fólk vita ef það þyrfti að rýma bæinn," útskýrir Björn Leví.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í dag ræddi lögreglan á Austurlandi við karlmann í dag vegna ó­stað­festra hótana sem bárust gegn for­sætis­ráð­herra. Karl­maðurinn sem um ræðir heitir Jon­a­t­han Moto Bisagni og er íbúi á Seyðis­firði. Hann telur að meira hefði verið hægt að gera til að koma í veg fyrir svo mikla eyðileggingu og að aurskriðurnar á Seyðis­firði í síðustu viku væru ekki náttúru­ham­farir heldur megi rekja til van­rækslu stjórnvalda.

Björn Leví segir frá því að maðurinn hafi útskýrt hvernig björgunarsveitin hafi verið að fylgjast með svæðinu með dróna og hvernig myndir hafi verið sendar á viðeigandi staði, en enginn brugðist við. Þrátt fyrir að fólk vissi af því að þetta gæti gerst.

„Hvort sem um er að ræða handvömm eða yfirsjón er málið augljóslega alvarlegt. Ég veit ekki hvort viðkomandi hótaði einhverjum öðrum en það gerði hann svo sannarlega ekki við mig," segir Bjön Leví.

Var í símanum við þegar lögreglan bar að garði

Maðurinn hringdi í Björn Leví í tvígang í dag en í síðara skiptið vildi lögreglan ná tali af manninum vegna meintum hótunum.

„Hann hljómaði eins og áhyggjufullur íbúi Seyðisfjarðar. Skiljanlega svo. Þrátt fyrir aðstæður gat hann útskýrt málið fyrir mér á yfirvegaðan, en tilfinningaþrunginn hátt. Hugur minn er hjá honum og öllum íbúum Seyðisfjarðar. Ég sagði honum að þingmenn hefðu fullvissað sig um það áður en þingið fór í hlé að fjármagn væri til staðar til þess að bregðast við ástandinu. Allir þingmenn stjórnarinnar sem ég talaði við fullvissuðu mig um að svo væri og að sú fullvissa kæmi frá ríkisstjórninni."

„Ég bið fólk að fara vel með opinbert vald. Beita tillitseminni."

Ég fékk símhringingu frá þessum manni. Honum var augljóslega mikið niðri fyrir út af ástandinu en útskýrði það í mjög...

Posted by Björn Leví Gunnarsson on Tuesday, 22 December 2020