Karl­maðurinn sem var sak­felldur fyrr á árinu fyrir að hafa brotið kyn­ferðis­lega á bæði dóttur sinni og stjúp­dóttur, á­samt konu sinni, hefur á­kveðið að á­frýja dómi Héraðs­dóms Reykja­ness til Lands­réttar. Það stað­festir Sig­ríður Frið­jóns­dóttir, ríkissaksóknari, í sam­tali við Frétta­blaðið í dag. Fyrst var greint frá málinu á RÚV.

Kona mannsins hefur ekki tekið á­kvörðun um hvort hún á­frýi sínum dómi sam­kvæmt Sig­ríði, en hennar frestur til að taka á­kvörðun um á­frýjun rennur út í þessari viku. Dómur féll í málinu fyrr á þessu ári. Karl­maðurinn var dæmdur til sex mánaða fangelsis­vistar og kona til fimm ára.

Við þing­festingu málsins í nóvember síðast­liðnum játuðu hjónin hluta brotanna sem þeim voru gefin að sök en neituðu sök í öðrum á­kæru­liðum. Þau voru bæði á­kærð fyrir að hafa nauðgað dóttur konunnar, sem er stjúp­dóttir mannsins, snemma á síðasta ári, tekið myndir og mynd­bönd af brotunum; fyrir að hafa veitt henni á­fengi og fyrir að hafa fram­leitt barna­níðs­efni sem sýndi hana á kyn­ferðis­legan hátt.

Þau eru einnig á­kærð fyrir brot gegn yngri dóttur sinni en brotin gegn eldri stúlkunni voru framin að þeirri yngri við­staddri. Maðurinn var einnig á­kærður fyrir vörslu barna­kláms, vopna­laga­brot og fyrir í­trekuð brot í nánu sam­bandi gegn syni sínum og dóttur með því að hafa rass­skellt þau í­trekað á sjö ára tíma­bili.