Oddur Ævar Gunnarsson
odduraevar@frettabladid.is
Laugardagur 1. október 2022
12.00 GMT

Ljóð­skáldið, rit­höfundurinn og kennarinn Ás­dís Ingólfs­dóttir stendur á tvö­földum tíma­mótum á þessu ári en annars vegar eru tuttugu ár og hins vegar fimm­tán síðan hún greindist með krabba­mein.

„Ég á bæði tuttugu ára og fimm­tán ára af­mæli,“ segir Ás­dís og hláturinn sem ein­kennir hana og já­kvætt hugar­far hennar berg­málar um kunnug­legar slóðir í aðal­byggingu Kvenna­skólans þar sem hún hefur lengi starfað og kennt þúsundum nem­enda. Meðal annars þeim sem þetta skrifar.

„Nú í vor voru tuttugu ár síðan ég fékk krabba­mein í vinstra brjóstið og í októ­ber eru fimm­tán ár síðan ég greindist og hægra brjóstið var tekið. Þannig að þegar Krabba­meins­fé­lagið hafði sam­band og vildi fá að nota ljóð eftir mig þá fannst mér það of­boðs­leg upp­hefð,“ segir Ás­dís um ljóðið „Dregið verður um röð at­burða“ sem her­ferð Bleiku slaufunnar byggir á í ár.

„Ég var eigin­lega að tala við hann John Lennon um lífið í þessu ljóði. Þetta er lífs­ferillinn þar sem það er alltaf smá vá fyrir dyrum. Í æsku gætirðu fest tunguna með því að sleikja hand­rið í frosti. Svo þegar fram í sækir þá gætirðu gleymt ljósunum á bílnum eða að skrúfa fyrir baðið. Síðan getur lífið boðið þér upp á að finna æxli í vinstra brjóstinu, seinna hinu og vera hætt komin. Mér finnst ég samt ekkert merki­leg. Það eru fullt af konum sem eru að takast á við ó­trú­legustu hluti,“ segir Ás­dís.

Ásdís er stolt af því að eiga ljóðið sem Bleika slaufan byggir á í ár.
Fréttablaðið/Skjáskot

Börn í skugga meinsins

Einn af hverjum þremur getur vænst þess að greinast með krabba­mein á lífs­leiðinni, hinir eru oftar en ekki að­stand­endur.

„Ég var bara ó­trú­lega heppin að hafa farið í skimun. Ég hafði fengið boð frá Krabba­meins­fé­laginu en var alltaf að draga það að fara. Svo fór ég loksins og það skipti rosa­legu máli. Ég fór í gegnum lyfja­með­ferð, missti hárið og jú þetta var svo­lítill skafl að fara í gegnum en ég var á góðum vinnu­stað, með góða fjöl­skyldu og krakkarnir ekker mjög litlir, Lauf­ey dóttir mín sem er yngri var tíu ára.“

Blaða­maður rifjar upp að móðir sín hafi greinst með brjósta­krabba­mein á svipuðum tíma og Ás­dís, árið 1999. Það er því auð­velt að tengja við það sem Ás­dís segir um börnin, sem skilja lítið hvað raun­veru­lega er í gangi á meðan slíkum veikindum stendur.

„Hún dó?“ spyr Ás­dís.

Já. 2008. Maður man varla eftir þessu úr æsku en æskan var bara „Mamma er með krabba­mein. Mamma er ekki með krabba­mein.“ Þannig maður tengir við þetta sem þú segir um börnin þín.

„Það er það sem að situr eftir, að börnin hafi þurft að vera með þennan skugga á æskunni, sem á að vera svo björt og sak­laus. Ég skil þig. Mér finnst ó­trú­legt að þú sért svona tengdur og man að ég hugsaði rosa­lega mikið til þín. Ég held ég hafi vitað þetta þegar þú varst hérna og þá hugsaði ég alltaf „við erum samt svo heppin,“ segir Ás­dís.

„Ég var þremur árum á eftir mömmu þinni. Þá voru komnar nýjar að­ferðir, allir eitlar voru skoðaðir og eitt­hvað af þeim tekið. Svo þegar ég fór í seinna skiptið sem var rúmum fimm árum seinna - þá fann ég að það höfðu orðið fram­farir á öllum ferlum og rann­sóknum.“

Bara á þessum fimm árum?

„Nefni­lega, það er stöðugt þróun. Á öllum stigum, þess vegna er svo mikil­vægt að svara kalli í skimun það er númer eitt. Rann­sóknir sem eru í gangi eru líka svo gríðar­lega mikil­vægar. Svo ég tali nú ekki um og stuðning, meðal annars hjá Krabba­meins­fé­laginu,“ segir Ás­dís dreymin á svip.


„Lífið er að finna æxli í vinstra brjóstinu, seinna hinu, vera hætt komin, horfa á sjónvarpið, kveðja gamalt fólk, rek´inn nefið, lesa bókmenntir og gamla reyfara. Lífið er að halda matarboð, fara í fótbolta, njóta stundanna, drekka eðalvín, fara í skíðafrí og skanna útsölur.“


Upp­lifði miklar fram­farir

„Þannig að ég upp­lifði ýmsar fram­farir á eigin skinni. Svo fór ég ein­hvern veginn í gegnum þetta í annað sinn. Kannski er þetta ís­lenska leiðin, eða ég veit ekki hvað ég á að kalla þetta. Við erum bara að moka okkur í gegnum þennan skafl og vonum bara að veðrið batni. Það er alltaf þannig og við vitum að þetta gengur yfir. Svo reynum við auð­vitað að njóta tímans þegar allt er gott og erum bara að lifa lífinu.“

„Í fyrra skiptið sagði læknir mér að ég ætti að hlífa mér rosa­lega mikið. Til dæmis ætti ég ekki að fara í staf­göngu, það reyndi of mikið á hand­leggina. Svo fimm árum seinna var mér sagt að ég mætti gera allt sem ég treysti mér til. Þá fór ég í Kastað til bata, því góða verk­efni á vegum Krabba­meins­fé­lagsins, sem er flugu­veiði­ferð fyrir konur sem fengið hafa brjósta­krabba­mein og reynir auð­vitað mikið á hendur og hand­leggi,“ segir Ás­dís hlæjandi.

Þegar þú greindist í fyrra skiptið, dastu bara strax í já­kvæðnina?

„Það bara ein­hvern veginn kom af sjálfu sér. Ég var þarna 43 ára með tvö börn og við vorum ný­búin að kaupa okkur lítið hús og rífa allt inn úr því!“ segir Ás­dís, að sjálf­sögðu hlæjandi.

„Þannig að ég var bara að flytja. Ég skil­greindi mig aldrei sem sjúk­ling. Ég fékk strax þessa sterku til­finningu, af því að það var svo mikið skorið, það var allt brjóstið tekið og ein­hverjir eitlar, þannig ég hugsaði bara: „Þetta er farið og ég er ekki veik!“ Samt þurfti ég auð­vitað að gróa sára minna og fara í lyfja­með­ferð. Og fór svo í upp­byggingu, sem mis­lukkaðist að vissu leyti en það var lagað með seinna brjóstinu. Þetta voru svona verk­efni frekar en eitt­hvað annað.“

Ás­dís rifjar upp fundar­ferð. „Ég var örugg­lega alveg rosa­lega lasin og hár­laus að fara á ein­hvern fund. Og ein­hverjum fannst þetta nú svo­lítið mikið og spurði mig: „Þarftu nú eitt­hvað að fara á þennan fund?“ segir Ás­dís kímin.

Ásdís hefur verið kennari í Kvennaskólanum um árabil og er þekkt fyrir jákvætt hugarfar.

Ég er ekki sjúk­lingur

„Þetta voru ein­hverjar á­hyggjur. Þá svaraði ég að bragði: „Ég er ekki sjúk­lingur. Ég er bara slöpp af því að vera að fá lyf. Þannig ég fer bara á þennan fund og ég smita engan!“ Nú erum við svo með­vituð um það,“ segir Ás­dís brosandi og vísar í heims­far­aldurinn.

Það gekk alveg?

„Já, en svona eftir á að hyggja þá hefði ég kannski átt að hvíla mig stundum. En ég hugsaði þetta aldrei þannig að ég væri eitt­hvað að berjast, heldur var meinið skorið burt, það var farið. Þegar ég greindist í seinna skiptið þá var ég eitt­hvað að grínast í konunni í skimuninni: „Ég er bara með eitt brjóst! Á ég ekki að fá af­slátt? Borga ég ekki helming fyrir brjósta­mynda­töku?“ og var rosa fyndin. Þannig að þegar kom í ljós að það var krabbi þá kom það mér rosa­lega mikið á ó­vart. Hvernig getur þetta verið? Hvaða rugl er þetta? Þetta var öðru­vísi. Þetta var at­burður sem mér fannst vera ó­hugsandi.“

Þú varst væntan­lega ný­komin yfir hitt?

„Ég og Lauf­ey dóttir mín vorum ein­mitt búnar að vera að telja töflurnar sem eftir voru. Ég hafði verið á inn­töku­lyfjum í fimm ár. Hormóna­bælandi lyfjum eða hvað þetta heitir og ég átti bara 21 töflu eftir. Ég hugsaði með mér: „Á ég að þurfa að gera þetta aftur? Hvað er þetta eigin­lega? Það er ekki stundar­friður hér fyrir þessu!“ segir Ás­dís hlæjandi.

„Mér er mjög um­hugað um börn sem upp­lifa þennan veru­leika,“ segir Ás­dís. „Átta, níu ára gamlir krakkar skilja eitt­hvað en hafa ekki for­sendur til þess að ná utan um þetta.“

Það er ná­kvæm­lega eins og ég man þetta. Maður skildi þetta bara ekki.

„Þess vegna er Krabba­meins­fé­lagið svo frá­bært. Maður er sjálfur í verk­efni sem er mjög á­þreifan­legt. Ég er keyrð upp á skurð­stofur og ég er svæfð. Á meðan eru börnin heima og þau vita ekkert hvað er í gangi. Þannig þetta er aldrei á­þreifan­legt og þau ná alls ekki utan um það. Þau geta ekki í­myndað sér þetta, þau þurfa stuðning sem er í boði hjá Krabba­meins­fé­laginu“ segir Ás­dís.

Sannur heiður

„Ég bað krakkana mína núna daginn að skrifa nokkrar línur um þennan tíma. Sonur minn er orðinn 36 ára og hann man mjög lítið eftir þessum tíma þegar hann var 16 ára. Það sem hann man er að hann gat ekkert gert. Hvað hann var valda­laus, mátt­laus og úr­ræða­laus. Hann vildi ekki að þetta væri svona.

Dóttir mín, aftur á móti, var það lítil að hún eigin­lega bara greri við mig. En ég hugsa líka að það hafi verið hennar leið til þess að reyna að ná utan um þetta. Það eru mjög eðli­leg við­brögð, að hafa augun á þessari móður og at­huga hvort hún andi ekki örugg­lega,“ segir Ás­dís hlæjandi.

„Það er mér gríðar­lega mikils virði að fá að taka þátt í þessu á­taki Krabba­meins­fé­lagsins. Segja mína sögu, gefa öðru fólki von og þakka fyrir þann stuðning sem ég fékk frá fé­laginu. Það er sannur heiður að þau hafi viljað nota ljóðin mín. Þetta er sannar­lega skemmti­leg leið til að halda upp á tíma­mótin,“ segir Ás­dís. „Það er líka mikil­vægt fyrir þá sem eru að greinast að heyra af þeim sem komast heilir í gegnum þetta, muna eftir því að það eru margir sem lifa.“

Dregið verður um röð atburða

Lífið er að fæðast, lífið er að nærast, þroskast og hlæja, dýrka
pabba sinn, finna vonda lykt, kasta upp og plokka hor úr
nefinu. Lífið er að elska, missa tönn, passa lítil börn, hopp´ í
parís, fara í sund með systrunum.

Ekki sleikja handriðið í frosti

Lífið er að kveljast, vera á blæðingum, fara í klippingu, tapa í
handbolta, verða bumbult á jólunum, hata bíómynd og elska
Bieberinn. Lífið er að skrópa í skólanum, skemmta skrattanum
án þess að meiða neinn, fara á fyllerí og gefa dauðann í allan
djöfulinn.
Ekki kasta steini í gróðurhús í Hveragerði

Lífið er að vita að maður er til og veðrið skánar, fara til Færeyja,
pæla í pólitík, vera í frænkuklúbb, fara fjandans til, að lokum
finna sig, klára námið sitt, vinna yfir sig. Lífið er að segja upp
kærasta, finna nýjan, missa fóstur, finna mann sem lyktar vel án
ilmefna, taka lán og eignast íbúð.

Ekki gleyma ljósunum á Trabbanum

Lífið er að þrauka um stund, kjósa forseta, verða gjaldþrota,
eiga son og eignast dóttur. Skipta um skoðun, hætta að reykja,
brjóta veggi, elska náungann og nesta barnið sitt. Lífið er að
hugsa um umhverfið, flokka ruslið sitt, rækta kanínur, læra
tungumál, eiga lítinn garð, kaupa í Ikea.

Ekki gleyma að skrúfa fyrir baðvatnið

Lífið er að finna æxli í vinstra brjóstinu, seinna hinu, vera hætt
komin, horfa á sjónvarpið, kveðja gamalt fólk, rek´inn nefið,
lesa bókmenntir og gamla reyfara. Lífið er að halda matarboð,
fara í fótbolta, njóta stundanna, drekka eðalvín, fara í skíðafrí
og skanna útsölur.

Ekki henda eldspýtu í þurra sinu í Borgarfirði

Lífið er að lifa dauðann af og líka verkföllin, ala upp börn og
kannski barnabörn, sækj´um sumarhús og setja öðrum mörk.
Lífið er að grafa foreldra og líka systkini, vita allt og vita ekkert.
Lífið er að vera maður sjálfur, vera saman, vera sundur, vera til, þar til...

Ekki plana jarðarför í gríni

Athugasemdir