Hópslagsmál urðu í Hólagarði í Breiðholti á fimmta tímanum í dag og voru fjórir lögreglubílar kallaðir út vegna málsins. Sjónarvottar segja tvo menn hafa verið að slást og ógna ungmennum á svæðinu. Vitni að slagsmálunum sagði líklegt að annar mannanna hafi verið undir áhrifum fíkniefna.
„Við heyrðum börn gráta og sáum tvo menn takast á, annar þeirra virtist vera reyna að slást við börnin sem voru mjög skelkuð,“ segir starfsmaður Afrozone í samtali við Fréttablaðið. Starfsmaðurinn taldi þó víst að enginn hafi slasast alvarlega eftir átökin.
Hlaut sár á hendurnar
Lögregla kvaðst ekki geta tjáð sig um málið og vildi ekki staðfesta hvort hópslagsmál hafi farið fram eður ei. Vitni segja fjóra lögreglubíla hafa mætt á svæðið eftir að slagsmálin höfðu verið leyst upp. „Þeir komu þegar þetta var allt búið.“
Vitni sem kom á vettvang að slagsmálunum lokið sagði rúðu hafa verið brotna og að lögregla hafi tekið skýrslu af fólki á svæðinu. „Lögreglan var að ræða við ungan pilt sem hafði greinilega verið að reyna að stöðva átökin.“
Þá var ljóst að ungi maðurinn sem lögreglan ræddi við hafi hlotið áverka við að reyna að stöðva átökin. „Hann var með sár á höndunum sem blæddi úr,“ benti vitni á í samtali við Fréttablaðið. Ekki er vitað hvort ungi maðurinn hafi þurft að leita á sjúkrahús vegna áverkana.
