Strætóbílstjóri rak farþega út úr vagni sínum við Hlemm eftir að hann hótaði farþega og sýndi af sér ógnandi hegðun.

Maðurinn virtist í miklu uppnámi og lét fúkyrðum rigna yfir annan farþega, meðan hann hélt á ís í annarri hendi og blómbönd í hinni.

Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, var nýfarinn í sumarfrí þegar Fréttablaðið truflaði hann með símhringingu. Hann segir að svona uppátæki séu blessunarlega sjaldgæf en að það komi fyrir að farþegar ógni bílstjórum og öðrum farþegum.

„Því miður þá kemur þetta fyrir. Af og til gerist það að farþegar ausa sér yfir bílstjóra en það er sjaldgæft að þeim eða öðrum farþegum sé hótað lífláti,“ útskýrir Guðmundur Heiðar.

Farþegi í vagninum náði athæfinu á myndband og birti það á samfélagsmiðlum.

Líkt og má heyra í myndbandinu kallar maðurinn annan farþega feita bumbu og segir honum að halda kjafti. Farþeginn sem um ræðir hafði beðið manninn um að róa sig og einbeita sér frekar á að borða ísinn sinn.

„Þú ert asni, halt þú kjafti,“ má heyra manninn segja. „Þú ert ekki búinn að sjá mig reiðan,“ bætti hann við áður en hann hótaði honum barsmíðum.

„En ekki í strætó, nei kallinn minn, það verður að vera fyrir utan. Ég fer ekki að skíta út strætóinn með þínu blóði.“

Að lokum fylgdi strætóbílstjórinn manninum út úr vagninum.