Þyrla Landhelgisgæslunnar náði ferðamanni, sem alda hrifsaði í Reynisfjöru um miðjan dag í gær úr sjónum, rétt fyrir klukkan sex.

Maðurinn var í skipulagðri ferð ásamt eiginkonu sinni.

Mörg banaslys hafa orðið í Reynis­fjöru á fárra ára tímabili.

„Ég er ekki búinn að sjá leiðir til að koma í veg fyrir þetta af því að fólk fer hreinlega ekki nógu varlega,“ segir Ingi Már Björnsson, formaður björgunarsveitarinnar Víkverja í Vík, aðspurður hvort ekki sé hægt að koma í veg fyrir þessi slys.

„Eftir síðasta slys í fyrrahaust fórum við að skoða aðstæður. Við fylgdumst með hverjum einasta ferðamanni og þeir gengu fram hjá hverju skiltinu á fætur öðru og litu ekki á þau,“ lýsir Ingi Már. „Það er því miður þannig að ég býst ekki við að þetta verði síðasta skiptið.“