Karlmaður sást ganga á sjálfum gígnum í Geldingadölum klukkan 14:00 í dag. Þyrluflugmaður hjá Þyrluþjónustunni Helo sá manninn ganga á barmi gígsins og náði eftirfarandi myndskeiði.

„Hann var bara að ganga þarna ofan á. Rölti bara rólegur og virtist drullusama. Þau sem voru um borð í þyrlunni sáu hann þarna. Ég veit ekki hvort hann hafi dottið ofan í eða komist til baka,“ lýsir Sindri Ólafsson, þyrluflugmaður.

Aðspurður segir hann stórhættulegar aðstæður við gíginn þótt dregið hafi úr hraungosi.

„Maður finnur þegar maður lendir þarna að ef það er slæm vindátt þá fær maður strax óþægindi í lungun,“ lýsir Sindri.

Ekki er vitað hvort um sé að ræða ferðamann eða Íslending en hann virðist ekki vera þarna í opinberum erindagjörðum.

Ekki á vegum björgunarsveita, lögreglu eða Veðurstofu

Steinar Þór Kristinsson, svæðisstjóri björgunarsveitarinnar, kannaðist ekki við málið og sagði að þetta hafi sannarlega ekki verið einstaklingur á vegum björgunarsveitarinnar.

„Þetta er ekki björgunarsveitarmaður,“ segir Steinar Þór.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjórinn á Suðurnesjum, segir sömuleiðis að þetta hafi ekki verið fulltrúi þeirra.

„Nei, þetta er enginn á okkar vegum. Ég myndi vita það,“ sagði Úlfar.

Veðurstofa Íslands staðfestir einnig við Fréttablaðið að jarðfræðingar þeirra hafi ekki verið á svæðinu í dag.

„Nei, það var enginn á vegum Veðurstofunnar í Geldingadölum í dag,“ staðfesti fulltrúi Veðurstofunnar.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem menn fara sér að voða við hraunið í Geldingadölum. Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá hafa þónokkrir ferðamann farið út á hraunið.

Tveir ferðamenn gengu þvert yfir hraunbreiðuna í Geldingadölum upp að hrauná sem rennur úr stóra gígnum síðastliðinn ágúst. Daníel Páll Jónasson landfræðingur tók eftirfarandi myndir um þrjúleytið í gær en hann varð vitni að atvikinu og sá þá hverfa inn í þoku.

Daníel var í hálfgerðu áfalli þegar hann sá mennina tvo á hraunbreiðunni.
Mynd: Daníel Páll Jónasson

Nokk­uð ó­venj­u­leg sjón blast­i sömuleiðis við Her­mann­i Helgusyni, leiðsögumann og ljósmyndara, er hann var stadd­ur við gos­stöðv­arn­ar í júní. Þar sá hann ferð­a­mann stand­a á hraun­in­u á með­an kona sem var honum samferða hans tók af hon­um mynd­ir. Líkt og sjá má í með­fylgj­and­i mynd­skeið­i sem Her­mann birt­i á Insta­gram-síðu sinn­i var sjóð­and­i heitt hraun við fæt­ur manns­ins og ljóst er að illa hefð­i get­að far­ið.