Maður féll úr sex metra hæð á klifursvæði í Hnappavallahömrum nálægt Fagurhólsmýri á Suðurlandi síðdegis í dag. Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti manninn á sjúkrahús.

Maðurinn hafði verið að klifra ásamt félögum sínum þegar hann féll og barst Landhelgisgæslunni útkall rétt fyrir klukkan fjögur í dag. Ákveðið var að senda þyrlu á vettvang til að flytja manninn á sjúkrahús í Reykjavík.

Þyrlan lenti við Fagurhólsmýri klukkan 17:26 í dag og flaug af stað til Reykjavíkur skömmu seinna. Henni var lent hjá Landspítalanum í Fossvogi klukkan sjö í kvöld.

Ekki er vitað hversu alvarlegt ástand hins slasaða er sem stendur.