Mótmæli í Santiago, höfuðborg Chile, hafa staðið yfir alla helgina og hafa í raun breyst í fordæmalausar óeirðir. Harpa Elín Haraldsdóttir hefur verið búsett í Santiago í áratug og segir það einkennilega tilfinningu að borgin hennar hafi í raun breyst á nokkrum klukkutímum.

Óánægjan kraumar undir niðri

Um áratugaskeið hefur Chile verið stöðugasta ríki Suður-Ameríku. Á yfirborðinu hefur hagsældin verið mikil en undir niðri kraumar óánægja vegna misskiptingar, hás framfærslukostnaðar, lífeyriskerfisins, lágra launa og spillingar. Kveikjan að mótmælunum í Santiago var hækkun stjórnvalda á miðum í almenningssamgöngur. Miðinn hækkaði aðeins um 5 krónur á hverja ferð en það var dropinn sem fyllti mælinn.

„ Það er mikil efnahagsleg og samfélagsleg misskipting í Santiago, ákveðinn hluti borgarbúa mjög efnaður og síðan er stór hluti borgarbúa sem nær varla endum saman. Sá hluti vinnur langa daga yfirleitt langt frá heimili sínu og treystir því mjög almenningssamgöngur. Þessi hækkun og hvernig henni var framfylgt fór því mjög illa í fólk og varð til þess að mótmælin sprungu út. Fljótlega breyttust þau síðan í skelfilegar óeirðir,“ segir Harpa Elín.

Lágmarkslaun 50 þúsund

Að hennar sögn er farmiðahækkunin þó bara toppurinn á ísjakanum. „Maður upplifir gjá milli stjórnmálamanna og almennings. Chile er eitt ríkasta land Suður-Ameríku og hér dýrt að lifa. Lágmarkslaun eru rétt rúmlega 50 þúsund krónur á mánuði og það bara dugar ekki til að lifa af. Undanfarið hafa einnig komið upp nokkur svæsin spillingamál meðal grunnstofnanna ríkisins, til dæmis innan lögreglunnar og hersins, sem hefur reitt fólk til reiði. Eitt málið var tæklað þannig að hinir seku voru látnir sitja siðfræðitíma, sem var lausn sem fór ekki vel í fólk. Þessi mótmæli eiga sér því langan aðdraganda og rótin er flókin“ segir Harpa Elín.

Harpa Elín Haraldsdóttir

Harpa Elín Haraldsdóttir

Virtu útgöngubann að vettugi

Að hennar sögn hafi stúdentar hafið mótmælin með því neita að borga hið hækkaða miðaverð og stökkva yfir gjaldhlið neðanjarðarstöðvanna. Stjórnvöld báru ekki gæfu til að hlusta og skilja hvað bjó að baki og á föstudaginn misstu þau í raun alla stjórn á stöðunni. Mótmælin breiddust hratt út, glæpamenn nýta sér aðstöðuna og mótmælin verða að stjórnlausum óeirðum í borginni. Tugir neðanjarðarlestastöðva hafa verið brenndar og um sextíu útibú verslunarkeðjunnar Lider, auk fjölda annarra verslanna og stofnanna, hafa orðið eldi að bráð. Þá hafa nokkrir látið lífið og hundruðir verið handteknir eða slasast. Forseti landsins, Sebastián Piñera, lýsti yfir neyðarástandi á laugardaginn og síðar um daginn dró hann fargjaldahækkunina tilbaka. Þegar það dugði ekki til var tilkynnt um algjört útgöngubann yfir nóttina í höfuðborginni.

„Það bann var virt að vettugi af stórum hluta borgarbúa. Í hverfinu sem ég bý í safnaðist fólk út á svalir og út á götur til að berja í potta og pönnur. Þetta var friðsamlegt en mjög áhrifaríkt.“

Fólk er óttaslegið

Harpa Elín segir ómögulegt að spá fyrir um hvernig ástandið muni þróast. „Neðanjarðarlestakerfið er lamað og í raun samgöngur í borginni allri. Skólar hafa verið felldir niður á morgun og mótmælin hafa breiðst út til annarra borga í landinu. Þetta er mjög einkennilegt ástand og þrátt fyrir að að samfélagið hafi verið á suðupunkti í nokkurn tíma þá kom þessi miklu mótmæli nokkuð á óvart. Margir eru stoltir af því að loksins er verið að draga athygli að málum sem liggja þungt á samfélaginu, en allir slegnir yfir eyðileggingunni. Þrátt fyrir friðsæld í mínu nærumhverfi núna þá finnur maður að fólk er mjög óttaslegið“ segir Harpa Elín.