Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, greindi frá því að einn einstaklingur hafi verið lagður inn á gjörgæslu Landspítalans í dag og sé nú í öndunarvél. Sjúklingurinn er á fertugsaldri.

„Það er augljóslega áhyggjuefni í dag að við erum að sjá fjölgun í tilfellum frá því í gær, ég held að maður gæti sagt að þessi faraldur sem hefur verið í gangi sé í vexti,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Aukning á alvarlegum veikindum

„Við erum líka að sjá aukningu á veikindum.“ Umræða hafi verið um að veiran væri að veikjast en það væri ólíklegt. „Ég held að það sé ekki merki um það ég tel að við séum að fara að sjá alvarleg veikindi eins og við gerðum síðastliðinn vetur.“

Þórólfur ítrekaði að engar rannsóknir sýndu fram á að veiran væri veikari núna en áður. „Það var veik von.“

Herða samkomutakmarkanir

Það er til alvarlegrar skoðunar að leggja til að samkomutakmarkanir verði hertar á næstu dögum að sögn Þórólfs. Ákvörðun um slíkt verður tekin á allra næstu dögum, mögulega um helgina. „Ef að það verður gert þá hef ég fulla trú á því að þær takmarkanir muni standa skemur en takmarkanirnar fyrr í vetur." Ekki sé þó hægt að fullyrða um slíkt.

Það mikilvægasta í stöðunni núna sé að standa saman og fylgja núverandi reglum. ,,Því miður eru dæmi um að fólk fari ekki eftir þessu, sem skilur eftir sig langa slóð veikinda."

Ekki fleiri smit síðan í apríl

Sau­tján greindust með inn­­­­lent kórónu­veiru­­­­smit síðasta sólar­hringinn. Þrettán greindust á sýkla- og veiru­­­­fræði­­­­deild Land­­­­spítala en fjórir hjá Ís­­­­lenskri erfða­­­­greiningu.

Fleiri inn­­lend smit hafa ekki greinst á einum sólar­hring síðan 9. apríl síðast­liðinn þegar 27 greindust með veiruna.

Fréttin hefur verið uppfærð.