„Það er enn þá allt á floti en það er verið að vinna víða á vett­vangi. Það eru allar okkar dælur úti,“ segir Al­freð Birgis­son varð­stjóri hjá slökkvi­liðinu á Akur­eyri þar sem sjór gekk upp á land og flæddi upp þrjár götur, Norður­götu, Gránu­fé­lags­götu og Eiðsvalla­götu í miklu ó­veðri sem nú gengur yfir landið.

Al­freð segir að reynt hafi verið að stöðva flóðin við húsin með því að setja sand­poka við inn­ganga en að það hafi ekki alltaf tekist að hamla flæðinu, svo mikið hafi verið af vatni.

„Maður er bara að berjast við At­lants­hafið. En það er ekki há­flóð lengur þannig þetta er að minnka og verk­efnum að fækka.“

Svæðið er að mestu iðnaðar­hverfi en þar er einnig að finna veitinga­staði. Al­freð á von á því að tölu­verðar vatns­skemmdir séu á svæðinu.

Sterk norðanátt og há sjávarstaða

Hann segir að veðrið sé að skána þótt svo að veðrið sé ekki orðið gott. Hann segir gott fyrir fólk að kíkja í kjallara sína og huga að vatni.

„Það er ekki því­lík rigning þannig þetta er ekki í þak­rennum, þetta er bara svaka­lega mikið af vatni sem er úr sjónum.“

Hann segir að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem þetta gerist en að það þurfi mjög slæma norðan­átt og háa sjávar­stöðu.

„Norðan­áttin er mjög sterk og staðan virðist nokkuð há. Það var bara flóð á götum.“