Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um níuleytið í morgun um mann sem hafði brotið sér leið inn á Reykjavíkurflugvöll.

Maðurinn fannst í flugskýli þar sem hann var handtekinn. Að sögn Guðmundar Péturs Guðmundssonar, lögreglufulltrúa er maðurinn nú í haldi lögreglu og verður yfirheyrður síðar í dag. Ekki er ljóst hver ásetningur mannsins var en það ætti að koma í ljós að lokum yfirheyrslu.

Svæðið er afgirt og erfitt að komast inn á það en ekki er vitað hvernig maðurinn braut sér leið inn.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að maðurinn verði kærður fyrir húsbrot.