Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, segist ætla að gera óbólusettum gegn Covid-19 lífið leitt.
„Ég vil gera þeim erfitt fyrir, og mun halda áfram að gera það, allt til enda,“ sagði forsetinn í samtali við franska miðilinn Le Parisien.
Í umfjöllun breska miðilsins BBC um viðtalið segir að andstæðingar hans hafi gagnrýnt harkalegt orðalagið og sagt það ekki við hæfi forseta og í kjölfarið var umræðum um nýja löggjöf sem á að banna þátttöku óbólusettra í viðburðum og öðru í opinberu lífi í Frakklandi.
Búist var við því að löggjöfin yrði samþykkt í þessari viku en hún hefur vakið reiði meðal þeirra sem andstæð eru bólusetningu gegn Covid-19 og þónokkrir franskir þingmenn hafa greint frá því að hafa fengið líflátshótanir vegna málsins.
Víða í Evrópu verður sett á bólusetningarskylda fyrir alla 14 ára og eldri, þar með talið í Austurríki í næsta mánuði auk þess sem Þýskaland ætlar að vera með slíka skyldu en þó líklega aðeins fyrir fullorðna.
Macron sagði í viðtalinu við Le Parisien að þótt svo að hann sjái ekki fyrir sér að skylda bólusetningu þá vilji hann hvetja sem flesta til að þiggja hana með því að hamla þeim sem ekki gera það þátttöku í viðburðum á opinberum vettvangi, eins og að fara á veitingahús, kaffihús eða í leikhús eða kvikmyndahús.
Um 90 prósent Frakka hafa þegið minnst tvær sprautur af bólusetningu en þar hefur verið skylda í nokkra mánuði að framvísa bólusetningarskírteini eða neikvæðu PCR prófi til að fá aðgang að opinberum stöðum. Sem svar við auknum tilfella smita vilja þingmenn fjarlægja þann valkost að fara í PCR próf.