For­seti Frakk­lands, Emmanuel Macron, segist vera stoltur af stuðningi sem hann veitti hags­muna­bar­áttu Uber í Frakk­landi. Hann myndi gera þetta aftur á morgun, og daginn þar á eftir ef hann þyrfti.

Hann átti í samskiptum við Uber á meðan hann var fjármálaráðherra Frakklands og kom í gegn löggjöf þar sem auðveldað var skráningu nýrra bílstjóra fyrir Uber, eitthvað sem leigubílastjórar gagnrýndu mikið.

Rúm­lega 124.000 skjölum var lekið til breska fjöl­miðilsins The Guar­dian frá Uber þar sem inn­sýn er veitt í ýmsar vafa­samar að­ferðir sem Uber hefur beitt til að brjóta sér leiðir inn á al­þjóð­lega markaði.

Macron er fyrirferðarmikill í gögnunum, hann var í miklum sam­skiptum við for­stjóra Uber, Tra­vis Kalanick, á meðal Macron var fjár­mála­ráð­herra Frakka­lands á árunum 2014 til 2016.

Ýmsir stjórn­mála­menn í Frakk­landi hafa kallað eftir út­tekt frá franska þinginu til þess að rann­saka sam­skipti Macron og Uber.

„Ég var ráð­herra og ég vann vinnuna mína. Við höfum séð of mikið af nei­kvæðri um­fjöllun þegar við fundum með stjórn­endum fyrir­tækja, sér­stak­lega er­lendum,“ sagði Macron þegar blaða­maður frá Le Monde spurði hann út í lekann. Hann bætti við að allir fundir hefðu verið opin­berir.

Macron sagðist vera stoltur af þeim störfum sem orðið hafi til með komu Uber í Frakk­landi. „Ég er stoltur af því, og veistu hvað, ég myndi gera þetta aftur á morgun og daginn eftir það,“ sagði hann.

Árið 2014 höfðu T­hé­venoud-lögin verið búin að hefta mögu­leika Uber til að starfa í Frakk­landi veru­lega. Lögin bönnuðu al­farið Uber­Pop, sem heimilaði hverjum sem er að starfa af og til sem bíl­stjóri fyrir fyrir­tækið.

Uber­Pop var mjög um­deilt meðal franskra leigu­bíl­stjóra, sem höfðu staðið fyrir miklum mót­mælum gegn Uber í Frakk­landi.

Árið 2015 skrifaði Macron undir til­skipun þar sem mildaðar voru kröfur um skráningu Uber bíl­stjóra.