Emmanuel Macron, sitjandi Frakklandsforseta, er spáð sigri í einvígi frönsku forsetakosninganna sem fara fram í dag samkvæmt nýjustu útgönguspám.
Ef satt reynist þýðir þetta að Macron sé búinn að tryggja sér annað fimm ára kjörtímabil sem forseti Frakklands auk þess að sigra mótframbjóðandann Marine Le Pen í annað sinn.
CNNog Le Monde spá því að Macron muni hljóta 58,2 prósent atkvæða og Marine Le Pen 41,8 prósent. Um er að ræða útgönguspá frá skoðanakönnuðunum Ipsos & Sopra Steria sem unnin var fyrir franska ríkissjónvarpið France Télévisions og ríkisútvarpið Radio France.
Franskir skoðanakönnuðir gefa vanalega út útgönguspár kl. 8 að staðartíma þegar kjörstaðir loka í stærstu borgum og nokkrum klukkutímum áður en innanríkisráðuneyti Frakklands gefur út opinberar niðurstöður. Kjörstaðir í Frakklandi lokuðu klukkan 6 á íslenskum tíma.
Útgönguspár Ipsos & Sopra Steria byggjast á gögnum frá kjörstöðum sem lokuðu klukkan 7 að staðartíma og að sögn CNN eru slík gögn gjarnan notuð af frambjóðendum og frönskum fjölmiðlum til að lýsa yfir sigurvegara.