Frakkar ganga til kosninga og velja sér forseta á sunnudag. Frambjóðendurnir sem etja kappi eru þeir sömu og í síðustu forsetakosningum, Emmanuel Macron og Marine Le Pen. Sitjandi forseta, Macron, tókst að sigra mótframbjóðanda sinn með miklum yfirburðum í síðustu kosningum en nú telja sumir Le Pen eiga meiri möguleika.

Nýjustu kannanir benda þó til þess að Macron verði endurkjörinn. Hann nýtur stuðnings á bilinu 55 til 57 prósenta á meðan 42 til 45 prósent styðja Le Pen.

Þetta er í þriðja sinn sem Le Pen býður sig fram til forseta fyrir hönd hægriöfgaflokksins Rassemblement National, áður Front National.

Frambjóðendurnir mættust í sjónvarpskappræðum á þriðjudag og þótti mörgum álitsgjöfum Le Pen hafa staðið sig betur en í síðustu rökræðum sem fóru fram árið 2017. Á fréttamiðlinum France24 er sagt að um nokkurs konar hlutverkaskipti hafi verið að ræða, frá því að kappræðurnar voru haldnar síðast.

Macron gekk á mótframbjóðanda sinn, á meðan Le Pen hélt stillingu. Tekist var á um afstöðu Le Pen til múslima og búrkubanns. Þá vó Macron harkalega að Le Pen fyrir fjárhagsleg tengsl við rússnesk fjármálafyrirtæki og lán sem hún tók árið 2014 í banka með rússneskan bakgrunn.