Emmanuel Macron ávarpaði stuðningsmenn sína fyrir framan Eiffel-turninn í kvöld og þakkaði fyrir stuðninginn en allt bendir til þess að hann hafi sigrað seinni umferð frönsku forsetakosninganna með 58,8 prósentum atkvæða.
Ræða Macron þykir nokkuð hógvær miðað við sigurræðu hans 2017 og beindi hann orðum sínum meðal annars til kjósenda mótframbjóðenda síns Marine Le Pen og sagðist skilja reiði þeirra.
„Ég er forseti fyrir hvert og eitt ykkar,“ sagði Macron og þaggaði niður þeim í stuðningsmönnum sínum sem púuðu á Le Pen.
Þá sagði Macron að seinni kjörtímabil hans myndi ekki vera framhald af því fyrra og hét því að takast á við öll núverandi vandamál Frakklands.
„Ég vil réttlátara samfélag, jafnrétti milli kvenna og karla. Árin fram undan munu svo sannarlega vera erfið en þau munu verða söguleg og við munum þurfa að skrifa þau í sameiningu fyrir komandi kynslóðir,“ sagði Macron áður en franski þjóðsöngurinn var spilaður.
Nokkrir núverandi og fyrrverandi þjóðarleiðtogar hafa þegar óskað Macron til hamingju með sigurinn, þar á meðal Olaf Scholz, kanslari Þýskalands.

Sigur þrátt fyrir ósigur
Marine Le Pen viðurkenndi ósigur sinn um svipað leyti og sagði að úrslit kosninganna væru skýr sigur fyrir framboð hennar þrátt fyrir að hafa tapað kosningunni með um 48,2 prósentum atkvæða.
„Hugmyndirnar sem við stöndum fyrir hafa náð nýjum hæðum í þessari seinni umferð forsetakosninganna. Með meira en 43 prósent atkvæða eru úrslit kvöldsins í sjálfu sér frábær sigur fyrir okkur,“ sagði hún við kjósendur sína áður en hún viðurkenndi ósigurinn.
„Til að forðast einokun valdsins þá skuldbind ég mig Frakklandi og franska fólkinu,“ sagði Le Pen og ýjaði þar með að því að hún væri alls ekki hætt í stjórnmálum.