Emmanuel Macron Frakklandsforseti tilkynnti með formlegum hætti að hann hygðist sækjast eftir endurkjöri í dag.

„Kæru landsmenn,“ segir Macron í framboðstilkynningunni, sem ber titilinn Bréf til Frakka. „Á fimm árum höfum við tekist saman á við ótal þrautir. Hryðjuverk, heimsfaraldur, aukið ofbeldi, stríð í Evrópu. Frakkland hefur sjaldan staðið frammi fyrir svo mörgum hamförum. Við höfum tekist á við þær með reisn og bræðralagi.“

Lengi hefur legið í loftinu að Macron myndi bjóða sig fram til annars kjörtímabils en með tilkynningunni er framboð hans orðið formlegt. Ef eitthvað er að marka skoðanakannanir er Macron næsta vís um að hafa forystu í fyrstu umferð kosninganna en þrír frambjóðendur keppast um annað sætið, allir hægra megin við forsetann. Fyrst er þar Marine Le Pen, leiðtogi frönsku Þjóðfylkingarinnar, sem var einnig í framboði árið 2017 en tapaði fyrir Macron í annarri umferðinni. Næstur er Éric Zemmour, sem þykir enn hægrisinnaðari en Le Pen og var sektaður fyrir hatursorðræðu í janúar. Loks er það Valérie Pécresse, sem er frambjóðandi hins hefðbundna miðhægriflokks Frakklands.

Macron var kjörinn á forsetastól árið 2017 sem frjálslyndur og Evrópusinnaður miðjumaður en almennt er fallist á að hann hafi hneigst lengra til hægri á valdatíð sinni. Í bréfinu fór Macron með almennum hætti yfir kjörtímabil sitt í Élysée-höllinni en lagði jafnframt línur að áherslumálum sem hann segist vilja tækla nái hann endurkjöri. „Ég býð mig fram til að þróa með ykkur franskt og evrópskt svar við áskorunum aldarinnar. Ég býð mig fram til að verja gildin okkar, sem umsviptingar um allan heim ógna. Ég býð mig fram til að halda áfram að undirbúa framtíð barna okkar og barnabarna.“

Fyrsta umferð forsetakosninganna fer fram þann 10. apríl næstkomandi.