Öflugur skjálfti að stærð 5,2 mældist klukkan sjö mínútur yfir átta í morgun, 2,7 kílómetra norðaustur af Fagradalsfjalli. Skjálftinn er hluti af jarðskjálftahrinunni sem hófst á Reykjanesskaga 24. febrúar með skjálfta að stærð 5,7. Skjálftinn í morgun er sá stærsti sem mælst hefur frá því á miðvikudag.

Elísabet Pálmadóttir, náttúruvásérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að við þurfum að undirbúa okkur undir álíka stóra skjálfta í dag.

„Það er alveg möguleiki á svipuðum skjálftum, við erum að búa okkur undir að þetta geti haldið svona áfram."

Hún segir erfitt að segja til um hvernig virknin verði, í gær hafi komið kraftur í hrinuna í hádeginu og svo aftur seint í gærkvöldi. „Þetta fer svollítið upp og niður og var mjög kröftugt í morgun," segir Elísabet.

Frá því á miðnætti hafa alls mælst um 870 skjálftar á svæðinu.

Hrinan er nú einkum bundin við svæðið milli Fagradalsfjalls og Keilis. „Skjálftarnir eru ekki að færa sig austar eða nær höfuðborgarsvæðinu, sem er jákvætt," segir Elísabet að lokum.