Skrúð­ganga á þjóð­há­tíðar­degi Banda­ríkjanna fór á hinn versta veg í gær þegar skot­maður hóf skot­hríð af þaki byggingar sem var með út­sýni yfir skrúð­gönguna. Sex manns létust í kjöl­farið og um fjöru­tíu aðrir slösuðust.

Skot­maðurinn var hand­tekinn nokkrum klukku­stundum síðar. Hann heitir Robert E. Crimo III og er 22 ára.

Þau sem við­stödd voru skrúð­gönguna lýstu því að þau hefðu haldið að skot­hljóðin hefðu verið flug­eldar. Það breyttist fljótt þegar þau sáu hundruð manns hlaupa í ótta frá skot­manninum.

„Þetta leit út eins og stríðs­svæði og það er ó­geðs­legt. Þetta er virki­lega ó­geðs­legt,“ sagði ein konan sem var við­stödd skrúð­gönguna með öldruðum föður sínum í sam­tali við CNN.

Skot­á­rásir hafa verið tíðar í Banda­ríkjunum upp á síð­kastið. Þessi kemur í kjöl­farið á tveimur sem vakið hafa mikla at­hygli. Önnur á­rásin var drifin á­fram af kyn­þátta­hatri, en þar skaut 18 ára maður tíu manns til bana. Hin á­rásin fór fram í lok maí þar sem 18 ára ein­stak­lingur réðst inn í skóla í Texas og skaut ní­tján nem­endur og tvo kennara til bana.

Sam­kvæmt Gun Vio­l­ence Archive, sam­tökum sem halda um tölu­legar upp­lýsingar um skot­á­rásir, hafa rúm­lega þrjú hundruð skot­á­rásir verið framdar það sem af er ári.

Lögregla flytur hér fjölskyldu af vettvangi.
Fréttablaðið/Getty