Öldungadeildarþingmaðurinn, Jeanine Áñez, hefur lýst því yfir að hún sé tímabundinn forseti Bólivíu eftir að fyrrum forsetinn, Evo Morales, sagði af sér og flúði til Mexíkó en þetta kemur fram í frétt BBC um málið. Þá sagði Áñez að hún myndi boða til kosninga sem fyrst.
Morales sagði af sér á sunnudaginn eftir að hann hafði verið sakaður um að hagræða úrslitum kosninga sem haldnar voru í síðasta mánuði. Mikil mótmæli hafa verið í landinu undanfarnar vikur vegna þessa en Morales var fyrst kosinn forseti árið 2006.
Áñez tók við embætti forseta þingsins í gær sem varð til þess að hún var næst í röðinni sem forseti landsins en varaforseti landsins, Alvaro Garcia, sagði einnig af sér um helgina. Stjórnlagadómstóll Bólivíu féllst á skipun Áñez sem forseta en meðlimir flokks Morales voru ekki viðstaddir fundinn sem boðað hafði verið til vegna málsins.