Andy Harwick, 51 árs Breti, segir að fólk þurfi að taka kórónu­veiruna sem veldur Co­vid-19 al­var­lega. Andy smitaðist af veirunni ekki alls fyrir löngu og varð hann fár­veikur í kjöl­farið. Mynd­band, þar sem Andy tjáir sig um ein­kenni veikindanna, hefur vakið tals­verða at­hygli.

Vef­út­gáfa breska blaðsins The Guar­dian fjallaði um þetta.

Í mynd­bandinu segir Andy að hann mæti að jafnaði þrisvar í viku í ræktina og sé al­mennt heilsu­hraustur. Hann hefur þó glímt við vægan astma á undan­förnum árum og hafa veikindin nú gert það að verkum að hann verður mjög and­stuttur og hefur lítið þrek.

Andy segir í mynd­bandinu að hann hafi á­kveðið að tjá sig um veikindin og ein­kenni þeirra eftir á­skoranir frá vinum og vanda­mönnum. Vill hann að fólk geri sér grein fyrir því að Co­vid-19 getur haft veru­leg á­hrif á heilsu fólks eins og dæmin hafa sannað.

„Mig verkjar í hrygginn, bakið og hálsinn. Ég vil helst ekki tala og ég verð and­stuttur við minnstu hreyfingar. Ég vil helst ekki lyfta höfðinu af koddanum,“ segir hann meðal annars og bætir við hann hafi aldrei upp­lifað annað eins. „Þetta er mjög sárs­auka­fullt og ég myndi ekki óska mínum versta ó­vini að fá þetta.“

Andy varð fyrst var við ein­kenni Co­vid-19 á föstu­dag í síðustu viku. Hann fékk þurran hósta til að byrja með og varð aumur í hálsinum í kjöl­farið. Hann fékk svo hita í kjöl­farið og varð mjög slappur. Ein­kenni frá öndunar­færum komu svo þegar hann var orðinn veikur; mæði og erfið­leikar við að anda.

Guar­dian hefur eftir eigin­konu Andy, Nicolu, að hann virðist vera á bata­vegi sem betur fer. Í gær átti hann orðið auð­veldara með að anda og virðist hann allur vera að hressast.

Mynd­bandið hefur sem fyrr segir vakið mikla at­hygli og segist Nicola ekki hafa reiknað með því þegar þau á­kváðu að gera mynd­bandið. Hún segir að fólk hafi haft sam­band og full­yrt að það hafi fram að þessu ekki tekið sjúk­dóminn al­var­lega. Mynd­bandið sem Andy birti hafi þó breytt því.