Landssamband veiðifélaga mun leggjast harðlega gegn því að leyft verði eldi frjórra norskra laxa í opnum sjókvíum í Ísafjarðardjúpi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá landssambandinu.

Hafrannsóknastofnun hefur kynnt tillögu sína um endurskoðað mat á hættu á erfðablöndun frá laxeldi í sjó.

Segir í tilkynningunni að í tillögunni felist ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og með henni sé ekki verið að horfa til samkomulags sem gert var í samráðsnefnd um stefnumótun í fiskeldi. Þá sé gerð alvarleg athugasemd við að í Ísafjarðardjúpi sé nú skylt að taka tillit til mótvægisaðgerða eldisfyrirtækja. Þess í stað ætti fremur að gera það að skilyrði fyrir eldisleyfi en ekki aðferð við að auka magn frjórra fiska í eldi. Þá sé ekki skylt að horfa til áhrifa laxalúsar eða sjúkdóma á nálæga stofna.

Í niðurlagi tilkynningarinnar segir að verði Ísafjarðardjúp opnað fyrir eldi frjórra laxa verði það svartur dagur í náttúruvernd hér á landi og ætli Landssamband veiðifélaga að leita allra leiða til að koma í veg fyrir að það nái fram að ganga.