Pálmi Freyr Hauks­son, sviðs­lista­maður og spuna­leikari, dvelur um þessar mundir á hóteli fyrir fólk sem hefur verið sett í ein­angrun vegna CO­VID-19 smits. Dvölin er að hans sögn nokkuð ó­raun­veru­leg og minnir ei­lítið á að vera staddur í vísinda­legri til­raun.

„Ég fékk sím­tal seint á sunnu­daginn um að ég hefði greinst með veiruna og fattaði strax að ég gæti hvorki verið heima hjá mér, þar sem ég leigi með fjórum öðrum, né heima hjá for­eldrum mínum, sem eru í á­hættu­hóp vegna aldurs.“

Stór­furðu­leg ein­angrun í vændum

Eftir sam­tal við við­bragðs­aðila var á­kveðið að Pálmi yrði fluttur á Foss­hótelið á Rauða­ár­stíg þar sem hann mun dvelja þar til ein­angrun líkur, eða í minnst 14 daga. „Allt í einu var þetta á­stand sem hefur vofað yfir manni orðið mjög á­þreifan­legt og ég á leiðinni í eitt­hvað stór­furðu­legt úr­ræði sem ég vissi ekki einu sinni að væri til.“

Ein­angrunin var þó ekki það sem olli Pálma kvíða heldur til­hugsunin um að hafa mögu­lega smitað ein­hvern annan. „Ég er svo gott sem ein­kenna­laus svo minn helsti ótti var að ég hefði mögu­lega smitað ein­hvern sem hefði síðan sýkt ein­hvern í á­hættu­hóp.“ Þá bar einnig á kvíða við að þetta væri upp­hafið af miklum veikindum hjá Pálma.

Hingað til hefur enginn sem Pálmi um­gengst greinst með veiruna og enn er hann við góða heilsu sem er mikill léttir. „Ég var að ein­hverju leyti feginn því að vera að fara á stað þar sem ég gæti ekki smitað neinn.“ Einnig kveðst hann vera þakk­látur fyrir það mikil­væga starf sem við­bragðs­aðilar sinna á þessum tímum.

Pálmi setur grímuna upp ef von er á starfsmanni í hótelherbergið.

Upp­á­búið við­undur

Leiðin á hótelið gekk hrak­falla­laust en ein­kenndist af að­stæðum sem komu Pálma nokkuð spánskt fyrir sjónum. „Það kom ein­hver maður í smit­búning og sótti mig. Ég þurfti að fara með sér­stökum bíl á hótelið og klæðast hlífðar­búnaði inni í bílnum.“

Þar sem Pálmi sat upp­á­búin með hanska og and­lits­grímu aftan í bílnum á leið í ein­angrun varð honum litið út um gluggann og furðaði sig á að þar gengi lífið enn sinn vana­gang. „Við hliðina á bílnum var ein­hver Lúlli Jóns á leiðinni í vinnuna og ég í­mynda mér hvað hann myndi halda ef hann kæmi auga á grímu­klædda við­undrið í næsta bíl.“

Þrátt fyrir að allir séu ó­trú­lega vina­legir er manni bara heilsað af fólki í hlífðarfötum, með grímu og gler­augu.“

Til­rauna­dýr í tveggja metra fjar­lægð

Þegar Pálma bar að hótelinu tók starfs­fólk á móti honum í­klætt hlífðar­búnaði og bauð hann vel­kominn. „Mér leið svo­lítið eins og ég væri í ein­hverjum leik eða hefði breyst í eitt­hvað dýr.“ Allir sem Pálmi hitti voru mjög góð­lát­legir en gættu þess að halda til­skipaðri fjar­lægð. „Allt í einu er minn veru­leiki orðin þannig að ef ein­hver talar við mig þá er hann í galla. Og þrátt fyrir að allir séu ó­trú­lega vina­legir er manni bara heilsað af fólki í hlífðarfötum, með grímu og gler­augu.“

Sér­lega skrítið sé að vera í kringum allt þetta upp­á­búna fólk án þess að vera með ein­kenni þess að vera ekki við fulla heilsu. „Þetta er eigin­lega eins og maður sé eini á­horf­andinn á ein­hverri leik­sýningu.“

Vistmenn hótelsins fá bakka með mat þrisvar sinnum á dag.

Strangar reglur innan hótelsins

Innan hótelsins gilda strangar reglur og fékk Pálmi leið­beiningar um hvernig dag­legu lífi væri háttað. Þrisvar á dag kemur starfs­maður með matar­bakka í her­bergið og fylgir því á­kveðið ritúal. „Áður en ég opna fyrir þeim þarf ég að vera búin að setja á mig grímu.“ Einnig þarf að virða tveggja metra regluna sem geri að­stæður enn furðu­legri.

„Þegar ég vakna og veit að maturinn er að koma þá líður mér mest eins og ég sé í til­raun.“ Með grímu og hanska hlustar Pálmi á bank á hurð og skvaldur neðar í ganginum færa sig í átt að her­berginu hans. „Á meðan sit ég í stól eins og Pavloskur hundur að bíða eftir verð­launum.“

Engar heim­sóknir eru leyfðar á hótelið og ekki má fara úr her­berginu nema til að skila matar­bakkanum. „Ég get þá annað­hvort skilið hann eftir fyrir utan her­bergis­hurðina eða farið fram nokkur skref og látið hann í svona rekka.“

Mér fannst mjög spennandi þegar ég á­kvað að labba þessi fimm skref út úr her­berginu með bakkann minn

Af­leiðingar að stíga út fyrir dyrnar

Fyrstu tvo dagana segist Pálmi ekki hafa þorað að færa matar­bakkann í rekkann. „Mér fannst mjög spennandi þegar ég á­kvað að labba þessi fimm skref út úr her­berginu með bakkann minn og náði þá í hanska og grímu og allt sem þarf til.“ Á sama tíma hel­tók hann ó­rök­réttur ótti um að læsast úti. „Ég sá fyrir mér að þurfa að fara niður í af­greiðslu, alveg bráð­smitandi, og út­skýra að ég hafi gleymt lyklinum inni í her­berginu.“

Í huga Pálma hefði þar farið af stað at­burða­rás líkt og í teikni­myndinni Skrímsli ehf. „Þetta myndi vera eins og þegar eitt skrímslið kemur út með sokk á sér og það ráðast allir á hann og það er farið með hann í burtu.“ Enn sem komið er hafa bakka­málin gengið slysa­laust.

Vel­komin í skrítna og skemmti­lega sket­sa­þáttinn hans Pálma já ókei fer í loftið á hverjum föstudegi.

Skipu­lag til að halda geð­heilsunni

Pálmi hefur nú dvalið fjóra af minnst fjór­tán dögum á hótelinu og út­býr ítar­lega dag­skrá til að fylgja dag hvern til að komast hjá því að fara yfir um. „Í gær svaf ég yfir mig og fannst alveg ó­þolandi að hafa misst af fyrstu þremur liðunum á dag­skránni minni. Það er mikil­vægt fyrir mig að hafa skipu­lag á deginum til að komast í gegnum þetta, ef ég væri bara að hangsa og vafra um á netinu myndi mér bara líða illa.“

Það verður hins vegar að teljast ó­lík­legt að Pálmi hafi ekki nóg fyrir stafni í ein­angrun þar sem hann býr yfir þeirri sér­stöðu að halda uppi hlað­varpinu „Vel­komin í skrítna og skemmti­lega sket­sa­þáttinn hans Pálma já ókei“ þar sem Pálmi sjálfur fer með öll hlut­verkin.

Fer með öll hlut­verk í hlað­varpi

Hann segist ekki endi­lega hafa búist við því að svo yrði komið fyrir honum að einn daginn yrði honum út­skúfað úr sam­fé­laginu í til­tekin tíma. Þátturinn hafi ekki verið samin til að sjá fyrir því á­standi.

Núna er bara orðið ó­trú­lega bjána­legt að ég sé að gera þetta hlað­varp og vera í al­vörunni einn

„Það asna­legasta við þetta er að ég byrjaði á þessum hlað­varps­þáttum vegna þess að ég var alltaf um­kringdur fólki.“ Ei­líft hópa­starf hvatti til þess að leita í ein­veru og fá þannig út­rás fyrir sköpunar­þörfina. „Núna er bara orðið ó­trú­lega bjána­legt að ég sé að gera þetta hlað­varp og vera í al­vörunni einn þar sem djókið átti að vera að hafa engan til að taka þátt í honum. Það er hins vegar orðin minn raun­veru­leiki.“

Skriftir fyrir þáttinn ganga vel í ein­angrun og hyggst spuna­leikarinn leita allra leiða til að taka hlað­varpið upp undir sæng á hótel­her­berginu. „Ég verð eigin­lega bara að gera það til að eiga sögu­lega stað­festingu á þetta hafi átt sér stað.“

Þátturinn drepi einnig mikinn tíma. „Það er alveg ó­trú­lega mikil vinna að skrifa, taka upp, klippa, mastera, finna bak­grunns­hljóð og ráða úr því hvort þessi Pálmi sé fyndnari en hinn Pálmi.“

Pálmi heldur einnig úti hlaðvarpinu Einhleyp, einmana og eirðarlaus ásamt Steineyju Skúladóttur.

Gæti hrætt ná­grananna

Í þættinum bregður Pálmi sér í allra kvikinda líki og lík­legt að upp­taka þess sé skraut­leg. Að­spurður hvort ná­grannarnir hafi orðið varir við tökurnar kveðst hann ekki vera viss hversu hljóð­bært stúdíóið undir sænginni er.

Her­bergi númer 422 er greini­lega búin að missa það

„Ég náttúru­lega get ekki beðið neinn að tékka. Ef það heyrist eitt­hvað þá held ég að það sé ó­trú­lega furðu­leg upp­lifun bara „Bíddu var ekki gömul kona þarna áðan, eða ungur drengur eða þvoglu­mæltur bíll, já ókei her­bergi 422 er greini­lega búin að missa það,“ segir Pálmi hlægjandi.

„Þátturinn rímar vel við á­standið, hvernig sem á það er litið.“

Pálmi inni á hótelherbergi sínu.

Hefði verið í raun­veru­leika­þætti

Ekki er leyfi­legt að hitta annað fólk nema í gegnum fjar­skipta­búnað á meðan á ein­angruninni stendur. „Það er alveg hægt að öskra upp á fjórðu hæð en það er kannski ekki mjög skil­virkt.“ Vinur Pálma benti á að dvölin væri svo­lítið eins og fangelsi nema þar megi hitta sam­ferða­menn sína í vistinni.

Pálmi viður­kennir að hann elski að gera til­raunir á sjálfum sér og lýtur á dvöl sína á hótelinu sem á­kveðna þol­raun. „Ég var búin að skrá mig í raun­veru­leika þátt sem ég hefði lík­lega tekið þátt í í Dóminíska lýð­veldinu á næstu dögum, ef ekki væri fyrir heims­far­aldurinn.“ Þar hefði hann keppt við á­hrifa­valda frá Norður­löndunum um peninga­verð­laun. „Það er alveg það bjána­legast sem ég veit en það hefði verið upp­lifun.“

Barna­börnin munu spyrja „Afi fórst þú í stríð“ og ég mun svara „Nei ég var á hótel her­bergi í tvær vikur að gera ekki neitt.

Saga fyrir barna­börnin

Upp­lifun vist­manna ein­angrunar­hótelsins verður að ölum líkindum ekki minna eftir­minni­leg og býst Pálmi fast­lega við að segja barna­börnunum frá dvöl sinni á hótelinu. „Ég á örugg­lega eftir að segja þeim frá þessu og þau munu segja „Vá því­lík saga“ og þá mun ég þurfa að út­skýra að þetta hafi ekki verið mjög spennandi og að upp­á­halds­hluti dags míns væri að fylgjast með ein­hverjum manni í bolta­leik við hundinn sinn.“

Þannig verði hetju­sagan af CO­VID-19 far­aldrinum. „Barna­börnin munu spyrja „Afi fórst þú í stríð“ og ég mun svara „Nei ég var á hótel her­bergi í tvær vikur að gera ekki neitt, en hlustið endi­lega á þáttinn þar sem ég er að leika tvo bíla sem eru að tala saman.“