Lýst hefur verið eftir hinum 27 ára Konráð Hrafnkelssyni í Brussel en hvorki hefur sést né heyrst til hans frá því á fimmtudag.

Kærasta hans Kristjana Diljá Þórarinsdóttir greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni og óskar eftir öllum upplýsingum sem nýst gætu við leitina.

Hún segir í samtali við Fréttablaðið að óskað hafi verið eftir aðstoð lögreglu og sendiráðs Íslands í Brussel. Hún vildi að öðru leyti ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu.

Borgaraþjónustan veitir aðstoð

Sveinn H. Guðmarsson, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins, staðfestir við Fréttablaðið að leitað hafi verið til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins vegna málsins. Nú sé unnið að því að veita venjubundna aðstoð.

Konráð yfirgaf heimili sitt í Brussel að morgni síðasta fimmtudags og sást síðast klukkan níu sama dag á McDonalds-stað í Bourse-hverfinu í miðborginni.

Hann er 178 sentímetrar á hæð, með ljóst hár og blá augu. Hann yfirgaf heimilið á bláu reiðhjóli, klæddur í bláar gallabuxur, gráan stuttermabol og hvíta Nike skó.

Þá var hann með dökkan bakpoka, derhúfu og svört Marshall heyrnartól.

Kristjana tekur við öllum ábendingum í skilaboðum á Facebook eða í tölvupósti á netfangið info.konni92@gmail.com.

Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu.