Kötturinn Jón Snjór sem býr í Skipasundi hefur valdið eiganda sínum Marín Eydal Sigurðardóttur miklum heilabrotum að undanförnu.

Líkt og aðrir kettir gerir hann sig stundum heimakominn í húsum næstu nágranna og hefur Marín fundið það bæði á lyktinni af honum og því að stundum er líkt og hann finni ekki til hungurs þrátt fyrir langa útivist.

Svo gerist það að hann fer að hafa ólaskipti í útivistinni. „Hann átti fjólubláa ól og eitt skiptið kom hann ekki með hana heim. Ég fór þá og keypti aðra sem var svört og setti á hann, en næst þegar hann kom heim var hann ekki lengur með þá svörtu heldur var hann aftur kominn með gömlu fjólubláu ólina,“ segir Marín í samtali við Fréttablaðið.

Jón Snjór hafi svo bætt um betur í næsta skipti þegar hann kom með báðar ólarnar heim um hálsinn og hafði þannig endurheimt bæði fjólubláu og svörtu ólina.

„Það virðist vera að einhver sé að taka af honum ólina aftur og aftur og setja hana svo á hann aftur.“

Marín lýsir þessu dularfulla máli í færslu í hverfisgrúbbu Langholtshvefis.

„Kötturinn minn hefur semsagt verið að fara út og alltaf í lengri og lengri tíma í einu og kemur heim lyktandi eins og annað heimili. Við tókum eftir því að hann er farinn að borða minna og eitt kvöldið kom hann heim ekki með ólina sína. Ég fór þá og keypti nýja ól daginn eftir og nýtt merkihylki en þegar ég kom heim þá var hann aftur kominn með ólina sína. Nokkrum dögum síðar kom hann aftur heim ekki með ól svo ég setti nýju ólina sem ég keypti áður á hann. Þá kom hann heim það kvöld með báðar ólarnar á sér,“ segir Marín í færslunni.

Marín segir þetta nú hafa gerst nokkrum sinnum. Jón Snjór komi ekki heim með ólina, en fari svo út aftur og komi þá með hana um hálsinn.

„Það virðist vera að einhver sé að taka af honum ólina aftur og aftur,“ segir hún.

Nýjustu vendingar í málinu áður en færslan er skrifuð voru þær að búið er að taka neðri hlutann af merkihylkinu á ólinni og merkimiðinn farinn.

„Ég skil ekki afhverju einhver myndi gera þetta og hafa fyrir þessu og okkur er farið að finnast þetta virkilega óþægilegt,“ segir Marín í samtali við Fréttablaðið.

„Hann er náttúrulega alveg yndislegur, ef einhver er að reyna að ræna kettinum mínum þá skil ég það vel.“

Marín segist eiga erfitt með að trúa því að einhver einn einstaklingur geti verið að standa í þessu en það hafi verið ‚last resort‘ að fara með málið í hverfisgrúbbuna. „Ég er nú yfirleitt ekki sú týpa, en vissi ekki lengur hvað ég gæti gert,“ segir hún.

Hún segist eiga erfitt með að trúa því að einhver einn einstaklingur geti verið að standa í þessu en það hafi verið ‚last resort‘ að fara með málið í hverfisgrúbbuna. „Ég er nú yfirleitt ekki sú týpa, en vissi ekki lengur hvað ég gæti gert,“ segir hún.

Fleiri hafa svipaða sögu að segja

Marín segir umræðuna í grúbbunni ekki hafa skilað neinni skýringu, en af athugasemdum að dæma hafi fleiri upplifað eitthvað svipað.

Þar kemur fram að fleiri kettir hafi verið að tapa ólum og neðri hluta merkihylkja þrátt fyrir mjög góða herðingu. Ekki láta aðrir þess þó getið að kettir hafi verið að koma með gamlar ólar heim að nýju, líkt og Jón Snjór gerir reglulega.

„Hann er náttúrulega alveg yndislegur, ef einhver er að reyna að ræna kettinum mínum þá skil ég það vel,“ segir Marín, aðspurð um líklegar skýringar á þessu dularfulla máli.

Af almennum umræðum í hverfisgrúbbunni má þó sjá að líf katta í hverfinu er nokkuð ævintýralegt. Þar er meðal annars rætt um hvernig hundar fara um hverfið í leit að köttum til að éta og íbúar lýsa hörðum slagsmálum, bæði innbyrðis milli katta en einnig milli katta og hunda.

Einkum er rætt um tvo tiltekna hunda sem stunda að elta ketti og hrella þá. Í gær greindi DV frá því hvernig tveir hundar urðu ketti að bana í hverfinu.