Álfrún Auður Bjarnadóttir kemur fram í nýjasta hlaðvarpsþætti Eigin Konur í umsjón Eddu Falak þar sem hún lýsir ofbeldi af hálfu meðlims úr hljómsveitinni Gagnamagninu, hljómsveitinni sem keppti fyrir hönd Íslands í Evrópsku Söngvakeppninni, Eurovision árin 2021 og átti að taka þátt árið 2020.

Edda deilir styttri útfærslu af viðtalinu sem sjá má hér fyrir neðan en viðtalið í heild er fyrir áskrifendur að hlaðvarpinu Eigin Konur. Hægt er að gerast áskrifandi hér.

„Þetta gerist 2013-14, ofbeldið sjálft. Ég kynnist ótrúlega heillandi strák, hann var mjög ólíkur mér. Ég er mjög „free spirited“ týpa en hann var mjög með málin sín á hreinu, ef svo má segja. Var í háskólanámi, örlítið eldri en ég og bara einhvernvegin, flottan status í bæjarfélaginu og allskonar svoleiðis. Mér fannst ég voða heppin að hann væri að reyna við mig, átján ára eða nítján ára gömul,“ segir Álfrún, þegar hún rifjaði upp söguna.

„Hann heillaði mig upp úr skónum, það má segja það, og við byrjum saman. Um leið og við byrjum saman, þá kemur hann með eitthvað lítið. Litla hluti sem ég tók ekki eftir þá en tók eftir að hafa unnið í þessu. Eins og þegar, ég hlæ að þessu í dag, en þegar hann bara segir eitthvað „Mér finnst fólk sem er búið að sofa hjá meira en tíu manns bara viðbjóðslegt. Hvað ert þú búin að sofa hjá mörgum?“. Væntanlega fannst mér mjög erfitt að svara því, ég var þá alveg búin að sofa hjá fleiri en tíu strákum en ég fór í kerfi og laug, og sagði átta strákum eða eitthvað,“ segir Álfrún og heldur áfram:

„Þetta átti eflaust að vera taktík síðar meir, ef eitthvað annað kæmist upp. Seinna meir kom upp um annan strák, því ég átti að nefna alla strákana og hann komst að öðru nafni. Þá tjúllaðist hann og sagði bara, voru það ekki svona margir og sagði voru það ekki þessi, þessi og þessi. Þetta var fyrsta, svo var margt annað. Hann „love-bombaði“ mig þegar hann sagðist elska mig í fyrsta skiptið, það var þegar ég loksins lét undan ósk hans að eyða út vini á Facebook sem ég hafði sofið hjá. Þá fyrst fékk ég að heyra hann elskaði mig og þá fannst mér þetta þess virði.“

Í viðtalinu segir Álfrún frá kynferðislegu ofbeldi af hálfu mannsins sem um ræðir og andlegu ofbeldi.

„Hann í rauninni, aldrei, líkamlega ofbeldisbeitti mig, fyrir utan kynferðislega ofbeldið, en hann var oft svona kasta, eða mikið reiður. Maður var oft mjög hræddur og sagði margt ljótt, eins og, „Ef ég er svona lítils virði ætti ég bara að drepa mig,“, svona, koma samviskubiti á mig fyrir hvernig honum liði.“

Hægt er að nálgast viðtalið í heild sinni hér.