„Ég hef áhyggjur af trúverðugleika ef upplýsingar sem fram koma bera skugga á okkar starfsemi,“ segir Valgerður Rúnarsdóttir, læknir og forstjóri SÁÁ.

Brigslyrði hafa gengið milli Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og starfsmanna SÁÁ um hvort meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga hafi verið ábótavant með því hvernig sjúkraskrár skjólstæðinga voru nýttar. Sjúkratryggingar hringdu í skjólstæðinga til að tékka innihald símaviðtala sem samtökin buðu upp á í stað nærveruviðtala þegar rannsókn fór fram sem nú hefur leitt til þess að Sjúkratryggingar hafa sent málið til héraðssaksóknara.

Valgerður segir mikilvægt að SÍ hafi gætt þess þegar hringt var í skjólstæðingana að það hafi verið gert þannig að ekki grafi undan trausti. Þessi mál séu mjög viðkvæm. Ekki liggi fyrir lýsing á því hvernig SÍ hegðaði hringingunum.

„Sumt af okkar fólki hringdi og lét okkur vita að það hefði ekki verið aðvarað eða skýrt fyllilega út hvers vegna væri hringt. Það er á gráu svæði. Þetta er viðkvæmt fyrir mörgum og ekki eitthvað sem allir eru tilbúnir að ræða,“ segir Valgerður.

Sjúkratryggingar hafa samkvæmt lögum leyfi til að fela heilbrigðisstarfsmönnum að vinna svona verk. Ganga þarf þó úr skugga um að ákveðnu verklagi sé sinnt. „Hvort verklagið var eins og það á að vera, það veit ég ekki,“ segir Valgerður.

Hún segir eðlilegar og málefnalegar skýringar á fjölda símaviðtalanna sem rukkað var fyrir. Engir starfsmenn hafi hagnast á símaviðtölunum og það sé eðlilegt að fjöldi viðtala hafi stóraukist þegar meðferð sem áður gekk út á hópastarf snerist upp í einstaklingsþjónustu.

„Við erum boðin og búin til að fara betur yfir þetta með Sjúkratryggingum en við bjuggum ekki til aukakostnað fyrir ríkið. Ég er mjög hissa á að þetta mál sé komið til héraðssaksóknara.“