„Borgar­full­trúar, bæði í meiri og minni hluta, vita allt um þetta mál. Nú er spurningin, ætla þeir að gera eitt­hvað í því?“

Þetta segir í niður­lagi greinar sem fyrr­verandi starfs­menn leik­skólans Sælu­kots skrifa og birtist á vef Vísis í morgun. Ein móðir ritar nafn sitt einnig við greinina.

Kröfur lagðar fram á síðasta ári

Mál­efni Sælu­kots voru í deiglunni á síðasta ári eftir að fyrr­verandi starfs­menn sendu frá sér á­kall þar sem þess var krafist að leik­skólanum yrði tafar­laust lokað eða gerða rót­tækar breytingar á starfs­háttum hans. Kom fram að að­búnaði starfs­fólks og barna sem dvelja á leik­skólanum væri á­bóta­vant.

Í greininni, sem Margrét Ey­mundar­dóttir, kennari og fyrr­verandi leik­skóla­stjóri, María Lea Ævars­dóttir, kvik­mynda­gerðar­kona og móðir, Eva Drífu­dóttir, innan­húss­arki­tekt og fyrr­verandi starfs­maður og Krist­björg Helga­dóttir, deildar­stjóri og fyrr­verandi starfs­maður, skrifa undir kemur fram að skólinn sé rekinn af sér­trúar­söfnuði sem telur um 10 manns á Ís­landi.

Segja söfnuðinn bendlaðan við hryðju­verk

„Þessi söfnuður kallast Ananda Marga og hefur í gegnum tíðina verið bendlaður við hryðju­verk víða um heim. Reykja­víkur­borg gerir samninga við einka­rekna leik­skóla sem greiða sér út arð á sama tíma og þeir þiggja fé frá borginni. Stjórn­endur leik­skólans Sælu­kots keyptu rað­hús í Skerja­firði árið 2019 og greiddu sér út 41,8 m.kr. í arð árið 2020. Á sama tíma var leik­skóla­starfið í miklu fjár­svelti,“ segir í greininni sem birtist á vef Vísis í morgun.

Þar kemur enn fremur fram að þetta komi greinar­höfundum, sem eru úr hópi fyrr­verandi starfs­fólks og for­eldra barna í Sælu­koti, ekki á ó­vart.

„Við höfum safnað saman tugum lýsinga á­hyggju­fullra starfs­manna og for­eldra sem ná 10 ár aftur í tímann. Við höfum bent á að leik­skóla­starfið stenst engar þær kröfur sem gerðar eru til leik­skóla á Ís­landi. Má þar nefna að starfs­fólk er nær undan­tekningar­laust án fag­menntunar og er sömu­leiðis allt­of fá­liðað, sér­kennsla er engin, við­brögð rekstrar­stjórans við meintu kyn­ferðis­of­beldi gagn­vart barni voru mjög ó­fag­mann­legar og að­búnaður barna er slæmur al­mennt á leik­skólanum.“

Starfs­menn staldra stutt við

Þá er bent á að þá sjaldan að leik­skóla­kennari hafi sótt um starf á Sælu­koti hafi við­komandi staldrað stutt við. Þá sé það starfs­fólk, sem gerir kröfur um úr­bætur á Sælu­koti, jafnan rekið af rekstrar­stjóra leik­skólans.

„Lýsingar starfs­manna sem hafa unnið á Sælu­koti eru með ó­líkindum og minna meira á vist í fanga­búðum en á vinnu­stað. Starfs­fólkið lýsir auð­vitað líka þungum á­hyggjum af börnunum.“

Öllum virðist standa á sama

Greinar­höfundar viðra þær á­hyggjur sínar að því miður virðist vel­ferð barna og fag­legt starf gleymast um þessar mundir þegar þjarkað er um skort á leik­skóla­plássum sem þó er mergur málsins.

„Því höfum við undir­ritaðar tekið okkur penna í hönd eina ferðina enn til þess að freista þess að ein­hver hlusti. Það er nefni­lega svo að við höfum í­trekað látið Skóla- og frí­stunda­svið vita af ó­göngum Sælu­kots og sent þangað áður­nefndar lýsingar starfs­fólks og for­eldra. En ekkert gerist. Það virðist öllum standa á sama. Skólinn starfar enn og enn­þá er sami rekstrar­stjórinn þar við völd. Á leik­skóla þar sem enginn ætti að vera, allra síst börn.“

Í lok greinarinnar er svo bent á að þeir sem hafi á­huga á að fara í við­skipti og hyggja á skjótan gróða geti greini­lega opnað einka­rekinn leik­skóla, svelt starfið og greitt sér út arð.

„Það er ekkert mál. Það vitum við sem höfum nú reynt að vekja Reykja­víkur­borg upp af þungum svefni um starf­semi leik­skólans Sælu­kots. Eftir­litið er ekkert enda fá­rán­legt að sami aðili sjái um rekstur leik­skóla og sinni eftir­liti með þeim. Reykja­víkur­borg sem ekki hefur staðið við kosninga­lof­orð um leik­skóla­pláss fyrir for­eldra, já og auð­vitað börn, lokar ekki leik­skólum. Þeim verður haldið opnum út í rauðan dauðann. Borgar­full­trúar, bæði í meiri og minni hluta, vita allt um þetta mál. Nú er spurningin, ætla þeir að gera eitt­hvað í því?“