Ýmsir hópar um­hverfis­sinna hafa lýst yfir von­brigðum með lof­orð leið­toga G7-ríkjanna í lofts­lags­málum en leið­togarnir endur­nýjuðu í dag heit sín um að veita fá­tækari ríkjum 100 milljarða dali á ári til að draga úr kol­efnis­út­blæstri. Slíkt var fyrst gert árið 2009 og hefur verið gert ár­lega, þar til í fyrra þegar heims­far­aldur CO­VID-19 skall á.

Sam­kvæmt loka­yfir­lýsingu leið­toganna munu fjár­fram­lögin, 100 milljarðar Banda­ríkja­dala á ári, halda á­fram til ársins 2025 og verður dregið úr fjár­fram­lögum til kola­vinnslu.

Þá hafa Banda­ríkin, Þýska­land og Bret­land lofað að verja hundruð milljóna til að­stoðar þeim sem þurfa að glíma við af­leiðingar lofts­lags­breytinga.

„Við höfðum vonað að leið­togar ríkustu ríkja heims myndu ganga frá helginni með því að láta peningana tala,“ sagði C­at­herine Pet­tengell, yfir­maður Climate Action Network, í sam­tali við Reu­ters og vísaði þar með til þess að þau hafi viljað að fjár­fram­lög yrðu hækkuð, en ekki að­eins jöfnuð.

Teresa Ander­son, frá Action Aid, sagði einnig að fram­lögin væru engan vegin nóg til að bregðast við lofts­lags­vánni, ekki síst eftir þann skaða sem kóróna­veiran hefur valdið.

Milljarður skammta af bóluefnum til fátækari ríkja

Leið­toga­fundurinn fór fram í Cornwall í Bret­landi um helgina og voru þar saman komnir leið­togar Bret­lands, Banda­ríkjanna, Þýska­lands, Frakk­lands, Ítalíu, Kanada, og Japan.

Heims­far­aldur CO­VID-19 var einnig í brenni­depli um helgina en G7-ríkin til­kynntu meðal annars að þau myndu koma milljarð bólu­efna­skammta til fá­tækari þjóða, í von um að út­rýma far­aldrinum alls staðar í heiminum.

Í gær var síðan til­kynnt um svo­kallað 100 daga mark­mið til að takast á við far­aldra sem kunna að koma upp í fram­tíðinni. Í því felst að hægt verði að þróa bólu­efni, með­ferðar­úr­ræði, og greiningar­tæki á fyrstu 100 dögum nýs far­aldurs.