Samfok lýsir yfir vantrausti á bæði skóla- og frístundasvið Reykjavíkur og umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar og á verkfræðistofuna Verkís vegna langvarandi mygluvandamála í Fossvogsskóla sem enn eru óleyst.

Fundur vegna húsnæðis Fossvogsskóla var haldinn sameiginlega hjá skóla og frístundaráði og umhverfis-og heilbrigðisráði Reykjavíkur í morgun. Fundurinn var haldinn að beiðni fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í skóla-og frístundaráði og skipulags-og umhverfisráði og voru húsnæðismál skólans eina málið á dagskrá. Á fundinum sátu einnig fulltrúar Samfoks, Samtaka foreldra grunnskólabarna í Reykjavík.

Verkís hefur unnið í nær tvö ár fyrir Reykjavíkurborg við að taka sýni í húsinu og senda til greiningar og hefur gert úttektir á ástandi húsnæðis Fossvogsskóla og séð um aðgerðir. Ragnheiður Davíðsdóttir, formaður Samfoks segir enga framkvæmdaáætlun liggja fyrir um næstu skref í því að uppræta myglu og gró í húsnæðinu og þá sérstaklega í austurhluta skólans, sá hluti sé lítið ræddur þótt sýking sé þar. Nýjustu upplýsingar frá Náttúrufræðistofnun Íslands sýni m.a. að varasöm og heilsuspillandi gró af ætt kúlustrýnibbu sé að finna á átta til tíu stöðum og einnig inni húsnæðinu sem þykir mjög mikið og sjaldgæft.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa óskað eftir sérstakri umræðu um málefni skólans á borgarstjórnarfundi á morgun.

Yfirlýsing barst fyrr í dag frá foreldrum barna í Fossvogsskóla þar sem borgaryfirvöld eru sökuð um tómlæti um alvarlegar niðurstöður Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ). "Niðurstöður NÍ og minnisblöð frá Verkís sem sýna fram á að víða í Fossvogsskóla finnast varsamar sveppategundir lágu fyrir í desember 2020. Þær voru á hinn bóginn ekki birtar á vef Reykjavíkurborgar fyrr en í lok febrúar 2021, um tveimur og hálfum mánuði síðar. Þá hafa þær hvorki verið kynntar fyrir foreldrum né hefur heildarskýrsla verið birt", segir m.a. í yfirlýsingunni.

Kúlustrýnebba myndar chaetomins sem er frumueitur, segir í skýrslu NÍ.
Mynd/Úr skýrslu Náttúrufræðistofnun Íslands um sýnin í Fossvogsskóla
Litafrugga framleiðir sveppaeitur sem er meðal eitruðustu efna sem til eru og eru mjög krabbameinsvaldandi, segir í skýrslu NÍ.
Mynd/Úr skýrslu Náttúrufræðistofnun Íslands um sýnin í Fossvogsskóla

Brostið traust til borgarinnar

Enn fremur kemur þar fram að traust foreldra til borgarinnar sé brostið; "Við förum fram á að skóla- og frístundaráð og umhverfis- og skipulagsráð setji heilsu barna og starfsfólks í forgang og beiti sér fyrir því að fundin verði varanleg lausn á mengunarvanda í Fossvogsskóla. Við krefjumst þess að tekin verði fleiri sýni, víðar um skólann, og haldið áfram að leita að rót vandans því ekki liggur fyrir hvaðan þessi hættulega mengun kemur.

Rýma skólann hið fyrsta

Þá verði lögð fram verkáætlun um til hvaða aðgerða eigi að grípa. Þetta þarf að vera gert á gagnsæjan hátt og foreldrar verði upplýstir um hvert skref sem tekið verður. Þá fái foreldrar upplýsingar um niðurstöðurnar um leið og þær liggja fyrir. Að lokum bendum við á að það er á ábyrgð Reykjavíkuborgar að bjóða nemendum og starfsfólki upp á að starfa í húsnæði sem er skaðlegt heilsu þeirra og hlýtur borgin að íhuga hvort ekki sé rétt að rýma skólann hið fyrsta þangað til lausn er fundin."