Ó­vissu­stigi al­manna­varna hefur nú verið lýst yfir á Norður­landi vestra, Norður­landi eystra, Vestur­landi og Vest­fjörðum vegna ó­veðurs sem spáð er í um­dæmunum í morgun. Appel­sínu­gul við­vörun tekur gildi á Norð­vestur­landi upp úr há­degi á morgun þar sem spáð er norðan­stór­hríð.

„Spáð er ó­veðri sem getur spillt færð og valdið foktjóni, fyrst á Norð­austur­landi í nótt sem gengur síðan vestur yfir Norður­land og nær há­marki á Vest­fjörðum seinni­part dags á morgun,“ segir í til­kynningu frá al­manna­vörnum um málið en fólk er hvatt til að fylgjast vel með veður­spá og færð á vegum.

Gular viðvaranir hafa verið í gildi á svæðinu í dag en í færslu lögreglunnar á Vestfjörðum á Facebook er vakin athygli á slæmri veðurspá fyrir morgundaginn. Gangi sú spá eftir verði mikil röskun á samgöngum og ekkert ferðaveður. Þá er snjóflóðahætta möguleg næsta sólarhringinn á vegnum um Súðavíkurhlíð.

Veðrið í dag hafði þó nokkur áhrif í umdæminu en að því er kemur fram í færslunni rann til að mynda bíll út af Skutulsfjarðarbrautinni og hafnaði í sjónum. Vegfarandi sem átti leið hjá synti að bílnum og hjálpaði ökumanninum í land.

„Það er því mikilvægt að ökumenn fari varlega. Bifreiðar séu búnar góðum hjólbörðum og ekið sé eftir aðstæðum. Veðurspáin gerir ráð fyrir því að þetta slæma veður taki enda. Það er næsta víst,“ segir í færslunni.