Ham­fara­á­standi hefur verið lýst yfir í Viktoríu­ríki í Ástralíu vegna fjölda nýrra til­fella CO­VID-19 og hafa út­göngu­tak­markanir verið hertar að því er kemur fram í frétt BBC. Að sögn ríkis­stjóra Viktoríu­ríkis, Daniel Andrews, taka hertar að­gerðir gildi klukkan 18 að staðar­tíma í dag og verða í gildi að minnsta kosti til 13. septem­ber næst­komandi.

Að­gerðirnar fela það í sér færri undan­þágur frá út­göngu­banni í ríkinu verði veittar. Í­búar Mel­bour­ne, höfuð­borgar ríkisins, mega til að mynda ekki fara út á milli klukkan átta á kvöldin og fimm á morgnanna og mega ekki ferðast lengra en fimm kíló­metra frá heimili sínu. Þá mega í­búar að­eins hreyfa sig úti einu sinni á dag og að­eins einn frá hverri fjöl­skyldu má sinna inn­kaupum.

„Við verðum að gera meira“

Frá upp­hafi far­aldursins hafa um 17 þúsund til­felli smits af völdum CO­VID-19 verið stað­fest í Ástralíu og 200 látist en talið var að Áströlum hafi tekist vel að halda far­aldrinum niðri. Í lok júní varð aftur á móti fyrsta dauðfallið í rúman mánuð í landinu og var því í kjölfarið frestað að draga úr samkomutakmörkunum. Fjöldi nýrra til­fella hefur aukist tals­vert síðustu vikur og voru tak­markanir settar á á ný snemma í júlí.

Far­aldurinn virðist vera á hraðri upp­leið í Viktoríu­ríki en 671 ný til­felli og sjö dauðs­föll voru stað­fest þar síðast­liðinn sunnu­dag. Andrews sagði út­göngu­tak­markanir hafa borið árangur í ríkinu en það væri ekki að gerast nógu hratt. „Við verðum að gera meira. Við verðum að sækja harðar. Það er eina leiðin til þess að við komumst út úr þessu,“ sagði Andrews á blaða­manna­fundi um málið.