Meiri­hluti Sjálf­stæðis­flokksins í bæjar­stjórn Sel­tjarnar­nes­bæjar lýsir fullu trausti við skóla­stjórn­endur og kennara við Grunn­skóla Sel­tjarnar­ness og um leið á­nægju með gott starf í skólanum til fjölda ára. Þetta kemur fram í til­kynningu frá meiri­hlutanum sem send var á fjöl­miðla nú síð­degis.

Líkt og fram hefur komið var kennsla felld niður í skólanum í dag vegna nei­kvæðrar um­fjöllunar um skólann á bæjar­stjórnar­fundi síðast­liðinn mið­viku­dag. Á fundinum bað meiri­hluti bæjar­­stjórnar nem­endur sem út­­skrifuðust úr skólanum í vor, og for­eldra þeirra, af­­sökunar á náms­mati skólans.

„Við vitum að mikill metnaður er innan Grunn­skóla Sel­tjarnar­ness um gott skóla­starf og mikil­vægt er að sátt og traust ríki um allt sem við­kemur skóla­málum á Nesinu,“ segir í yfir­lýsingu meiri­hlutans. Tekið er fram að staðan sé hörmuð og að fundað verði um málið með kennurum skólans hið fyrsta.

For­eldrar tíundu bekkinga kvörtuðu til skólans, bæjar­yfir­­valda og mennta­­mála­ráðu­neytisins í vor vegna mikillar ó­­á­­nægju með náms­mat. Að mati for­eldra sátu börn þeirra ekki við sama borð og jafn­aldrar þeirra annars staðar. Í kjöl­farið var unnin greinar­­gerð um náms­matið fyrir bæinn.

„Þessi um­­fjöllun hefur haft þau á­hrif inni í skólann að kennurum og stjórn­endum finnst frek­­lega að sér vegið og kennarar treysta sér ekki til að taka á móti nem­endum í dag,“ segir í til­­­kynningu skóla­­stjórn­enda, sem send var á for­eldra nemanda í sjöunda til tíunda bekkjar í morgun.

Yfir­lýsing meiri­hlutans í heild sinni:

Meiri­hluti bæjar­stjórnar lýsir fullu trausti við skóla­stjórn­endur og kennara við Grunn­skóla Sel­tjarnar­ness og um leið á­nægju með gott starf í skólanum til fjölda ára.
Við vitum að mikill metnaður er innan Grunn­skóla Sel­tjarnar­ness um gott skóla­starf og mikil­vægt er að sátt og traust ríki um allt sem við­kemur skóla­málum á Nesinu.
Meiri­hlutinn harmar þá stöðu sem upp er komin, og fundað verður um málið hið fyrsta.
Boðað verður til fundar með kennurum skólans til að ræða þá stöðu sem upp er komin.
Meiri­hluti Sjálf­stæðis­flokksins í bæjar­stjórn.