Stjórn Félags leikskólakennara lýsir áhyggjum sínum af stöðu leikskólamála hjá Hafnarfjarðarbæ.
Í ályktun sem félagið sendi frá sér í dag kemur fram að vandann megi rekja til nokkurra mála eins og sumaropnunar leikskóla, styttingar vinnuvikunnar og þeirra ákvörðunar að taka inn yngri börn.
„Hluti leikskóla Hafnarfjarðar býr við alvarlegan mönnunarvanda. Slíkt gerist ekki í tómarúmi og aðvaranir félagsins og leikskólasamfélagsins í Hafnarfirði hafa verið hunsaðar,“ segir í ályktuninni.
Þar kemur fram að bærinn hafi ákveðið að hafa sumaropnun í leikskólum þrátt fyrir að félagið hafi lagst harðlega gegn því og segir í ályktun að með því hafi ekki verið hlustað á fagleg rök, sama hvort þau komu frá félaginu, stéttarfélaginu eða öðrum sérfræðingum.
„Stærsta verkefni sveitarfélaga er að fjölga leikskólakennurum og hefur verið það lengi. Leikskólastigið hefur þróast hratt sem skólastig. Ákvarðanir samfélagsins um að taka sífellt inn yngri og yngri börn án þess að hugsa málið fyllilega til enda hefur aukið á vandann, aukið mönnunarþörf og hægt á hlutfallslegri fjölgun leikskólakennara þrátt fyrir mikla fjölgun í leikskólakennaranámi undanfarin ár,“ segir í ályktuninni.
Þar er einnig vikið að styttingu vinnuvikunnar sem hefur verið innleidd í leikskólum í Hafnarfirði. Í ályktuninni kemur fram að það hafi verið vitað að styttingin yrði snúin án kostnaðar.
„Leikskólinn er mjög viðkvæmur fyrir mönnun og að því leyti líkari vaktavinnustöðum en dagvinnustöðum. Það er alveg ljóst að samninganefnd FL mun ræða fjármögnun styttingu vinnuvikunnar við viðsemjanda sinn í næstu kjarasamningum,“ segir í ályktuninni og að hægt sé að mæta styttingunni með styttri dvalar- eða starfstíma.