Kristlín Dís Ingilínardóttir
Fimmtudagur 9. júlí 2020
15.05 GMT

„Ég er því miður enn að takast á við mikil eftirköst covid,“ segir Sandra Liliana Magnúsdóttir í samtali við Fréttablaðið. Hún greindist með kórónaveiruna byrjun apríl og hefur síðan þá þjáðst af öllum helstu langvarandi einkennum veirunnar.

„Ég glími við rosalega mikla þreytu daglega, alveg þannig að mig langar helst að leggjast niður á gólf og sofna. Ég fæ andþyngsli á hverjum degi, hvenær sem er dags, þó svo að ég liggi bara upp í sófa líður mér stundum eins og einhver sitji ofan á bringunni á mér.“

Einkenni Söndru eru dæmigerð hjá fólki sem hefur greinst með veiruna en einkennin sem hefur borið hvað mest á meðal smitaðra eru orkuleysi, skortur á bragð- og lyktar­skyni, þrótt­leysi, höfuð­verkir, mæði, einbeitingarskortur og vöðva­verkir. Ekki liggur fyrir hversu margir hér á landi þjást af téðum einkennum en yfir hundrað manns kváðust enn þjást af eftirköstum covid í fimm hundruð manna Facebook hópnum „Við fengum covid.“


Þó svo að ég liggi bara upp í sófa líður mér stundum eins og einhver sitji ofan á bringunni á mér.


Óljóst hvort einkenni gangi til baka

Runólfur Páls­son, for­stöðu­maður á lyf­lækninga- og endur­hæfingar­þjónustu Land­spítalans, sagði í sam­tali við Frétta­blaðið að ekki væri full­yrða hvort eða hve­nær fólkið megi búast við að einkennin gangi til baka

„Við höfum hitt stöku ein­stak­linga sem eru með þessi lang­vinnu ein­kenni mörgum vikum, jafn­vel mánuðum, eftir að þau veiktust og náðu bata af bráðu ein­kennunum.“

Sandra Liliana glímir enn við erfið eftirköst covid-19 veikinda.

Fann enga lykt af kúkableyju sonarins

Sandra segir einkennin há henni upp að því marki að hún geti ekki sinnt hversdagslegum verkefnum með góðu móti. „Ég verð ótrúlega móð við minnstu áreynslu. Til dæmis þegar ég held á yngsta stráknum mínum upp í rúm.“ Minnið sé einnig orðið gloppótt og það komi fyrir að hún rugli orðum saman. „Ég er ekki enn orðin alveg ég sjálf,“ bætir hún við.

„Ég missti bæði bragð- og lyktarskynið alveg í veikindunum.“ Að loknum bráðu veikindunum kom bragðskynið að hluta aftur en ekki lyktarskynið.

„Ég finn ekki hvort barnið mitt sé með kúkableyju og hef meira að segja næstum sett hann upp í rúm með óhreina bleyju því ég fann enga lykt.“ Nýlega hafi síðan bragðskynið dofnað á ný. „Undanfarið finn ég næstum sama bragð af öllu og greini ekki hvort ég sé að borða eitthvað súrt eða sterkt.“


Ég finn ekki hvort barnið mitt sé með kúkableyju og hef meira að segja næstum sett hann upp í rúm með óhreina bleyju því ég fann enga lykt


Fátt um svör

Veikindi Söndru voru mikil til að byrja með og þurfti hún að leita upp á göngudeild Landspítalans þar sem hún var fékk lyfseðilsgild ógleðilyf og róandi svo hún myndi ekki ofanda. „Maður var farin að berjast svo við að ná andanum að það var hætt við því.“

Hún þurfti ekki að leggjast inn á Landspítalann en var í eftirliti hjá covid-göngudeildinni þar til veiran greindist ekki lengur í skimun. Eftir formlega útskrift hefur Sandra þurft að leita til heimilislæknis þar sem göngudeildin tekur ekki á móti fyrrum sjúklingum.

„Heimilislæknirinn hefur því miður fá svör og þeir segja manni bara að slaka á.“ Sandra segir það þó breyta litlu hvort hún slaki á eða ekki. „Þessi einkenni koma hvort sem það sé við álag eða ekki.“ Hún vonast til að það breytist brátt en segir þó eitt jákvætt vera í stöðunni. „Ég er allavega með bullandi mótefni svo ég ætti ekki að geta fengið þetta aftur, sem betur fer.“

Þorgerður Sigurðardóttir átti í stökustu erfiðleikum með að gera léttvæga hluti í kjölfar veikinda.
Fréttablaðið/Ernir

Frá hestaheilsu í rúmlegu

Lítið er vitað um Covid-19 veiruna þar sem sjúkdómurinn er tiltölulega nýr og læknavísindin hafa enn ekki komist að því hvers vegna sumir veikjast alvarlega en aðrir tiltölulega lítið. Þá er enn óljósara hvað veldur langvarandi einkennum og hvernig þau birtast.

Þorgerður Sigurðardóttir var við hestaheilsu þegar hún veiktist í lok mars en hún var með háan hita í rúmar tvær vikur. Hún glímir enn við langvinnandi vandamál í kjölfar covid-19 en segir þó allt vera að þokast í rétta átt.

„Ég er frekar heppin miðað við það að ég varð mjög veik,“ segir Þorgerður um veikindaferlið. Hún þjáðist af miklum veikindum í um einn mánuð og um tíma stóð til að leggja hana inn á spítala en ekkert varð úr því.


„Ég reyndi að ryksuga gólf og var komin yfir um tvo fermetra þegar ég þurfti að leggjast upp í rúm.“


Vöðvamassinn á bak og burt

Í lok maí eftir að erfiðasta hluta veikindanna lauk komst Þorgerður að því að veikindin höfðu útrýmt öllum vöðvamassa í líkama hennar. Hún hefur alla tíð verið mikil útivistar- og íþróttakona og hleypur og gengur á fjöll og var því fantaformi fyrir veikindi.

„Þetta kom mér persónulega á óvart þar sem ég er sjúkraþjálfari.“ Þorgerður lýsir því að það hafi verið furðulegt að geta ekki beygt sig niður á gólf og reist sig upp aftur. „Vöðvamassinn fór bara út um gluggann.“

Það var ekki bara styrkurinn sem kvaddi á þessu tímabili heldur einnig allt úthald. „Ég reyndi að ryksuga gólf og var komin yfir um tvo fermetra þegar ég þurfti að leggjast upp í rúm.“ Öll dagleg iðja breyttist í heljarþraut. „Ég hef aldrei upplifað svona þróttleysi á mínum fullorðinsárum.“

Hjartsláttartruflanir og mæða

Eitt af þrálátum einkennum veikinda Þorgerðar voru hjartsláttartruflanir. „Minn veikleiki var að fara of hratt af stað eftir rúmleguna.“ Hún ætlaði að sinna doktorsnámi, fyrirtæki og fjölskyldu á hnefanum en allt kom fyrir ekki. „Ég fann að ég hafði enga getu til að standa í þessu og fékk alveg svakalega hraðan og óreglulegan hjartslátt.“

Þorgerður fór snemma af stað en þurfti iðulega að leggjast fyrir um miðjan dag. „Eftir það stóð ég ekki upp restina af deginum. Batteríið varð bara allt í einu tómt.“

20 einstsklingar hafa farið í bráðaendurhæfingu í kjölfar kórónaveirunusmits.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Bjartsýn á framhaldið

Þegar leið og beið ákvað Þorgerður að leita til heimilis- og hjartalæknis. Síðan þá hafa hjartsláttartruflanirnar hægt og rólega gengið niður. „Þetta er meira og minna horfið í dag. Mér var ráðlagt að fara rosalega hægt af stað og ekki ætla mér nokkurn skapaðan hlut nema í rosalega litlum skrefum.“

Í dag þokast allt í rétta átt og langvarandi einkenni fara dvínandi. „Miðað við að vera 59 ára hraust manneskja sem varð veik í lungum þá er ég bara heppin.“ Með bjartsýnina að vopni er Þorgerður farin að stunda eins mikla hreyfingu og hún getur og vonast til að vöðvamassinn snúi aftur von bráðar.

„Ég er líka glöð að vera komin með mótefni sem ver mig á meðan það endist. Ég mæli ekki með þessu og verð skíthrædd þegar ég sé fólk haga sér ógætilega.“ Hún hvetur fólk til að vara sig á þessum ósýnilega vágesti af bestu getu á meðan ástandið er enn svo brothætt.  

Endurhæfing í kjölfar veikinda

Ekki hafa allir verið nógu hraustir til að takast á við eftirköst veikinda sinna heima við og hefur hlut covid sjúklinga þurft á endur­hæfingu að halda í kjöl­far veikindanna. Nú þegar hefur á annan tug sjúklinga þegar farið í bráða­endur­hæfingu á Reykja­lundi að sögn Magda­lenu Ás­geirs­dóttur, yfir­læknis. Þar af voru fimm sem komu að heiman án þess að hafa lagst inn á spítala.

„Ein­kenni þeirra sem koma í endur­hæfingu er svipuð og hjá fólki sem hefur fengið lungna­bólgu og fjöl­kerfa­sýkingar eða verið svæft og legið hreyfingar­laust lengi.“ Covid-19 sé kerfis­lægur sjúk­dómur sem leggst ekki að­eins á lungun heldur einnig heilann, æða­kerfið og hjarta­vöðvann.

Eftir að fólk út­skrifast úr Reykja­lundi heldur það á­fram í endur­hæfingu heima við og ef það jafnar sig ekki liggur leiðin í endur­hæfingu að nýju að sögn Magda­lenu.

Rakel Grímsdóttir fann ekki bragð af neinu í þrjá mánuði en fagnar nú bragðlaukunum með óhófsamlegri chili notkun.

Fann hvorki bragð né lykt svo mánuðum skipti

Það blæs fólki eflaust von í brjóst að sjá fólk með langvarandi einkenni covid feta bataveginn. Það sem er jafnvel enn meira uppörvandi eru þau sem hafa þegar náð fullum bata. Rakel Grímsdóttir er ein þeirra.

„Ég smitaðist í lok mars og fyrstu einkennin eru að ég missi bragð og lyktarskyn,“ segir Rakel í samtali við Fréttablaðið. Hún vissi strax að ástæðan hlyti að vera kórónaveiran þrátt fyrir að þetta hafi ekki verið talið eitt af staðfestum einkennunum á þeim tíma. Eftir að skimun reyndist jákvæð sagðist Rakel ekki búast við alvarlegum veikindum.

„Þetta voru einu einkennin sem ég fékk til að byrja með og þar sem ég er ung og hraust bjóst ég ekki við því að þetta yrði mikið verra.“ Stuttu síðar sló henni niður og hún var veik í tæpan mánuð.

„Ég jafnaði mig síðan á öllu nema bragð- og lyktarskyninu, þar kom ekki aftur um tíma.“ Rakel viðurkennir að hún hafi ekki endilega búist við að fá bragð og lyktarskynið aftur. „Ég hugsaði alveg að það væri möguleiki að ég myndi aldrei finna lykt og bragð aftur en mér fannst það samt alls ekki vera jafn slæmt og það sem aðrir eru að upplifa,“ segir Rakel einlæg.


Ég hugsaði alveg að það væri möguleiki að ég myndi aldrei finna lykt og bragð aftur


Þolinmæði eina vopnið

Hún var alltaf í góðum samskiptum við covid deildina á Landspítalanum í gegnum síma og var sagt að vera þolinmóð. „Þau sögðu að kannski fengi maður þetta til baka en kannski ekki. Maður veit ekkert með þessa veiru og það veit í raun enginn neitt svo ég beið bara róleg.“

Kosturinn við að þjást af þessu langvarandi einkenni er að mati Rakelar að það hamlar hvorki vinnu og né daglegt líf. Eftir að blaðamaður bendir á að flestir myndu þó sakna bragð- og lyktarskyns játar Rakel að hún hafi verið verulega ánægð að þegar einkennin gengu loks til baka, þremur mánuðum seinna.

„Bragðskynið fór á einni sekúndu en það kom svo mjög hægt og rólega til baka.“ Á meðan bragðskynið var að taka við sér voru ótrúlegustu matvörur paraðar með chili. „Ég notaði chili í örugglega allan mat, meira að segja boozt.“

Í dag er Rakel alveg laus við öll einkenni og orðin jafn heilsuhraust og áður en veikindin bönkuðu upp á. Hún hvetur fólk til að gæta að sér þar sem sjúkdómar af þessu tagi séu ekkert grín, sjálf segist hún hafa verið mjög heppin þrátt fyrir mánaðar veikindi og bragðlausan mat í þrjá mánuði.

Athugasemdir