Lögreglan í Noregi lýsir eftir manni sem gæti verið vitni í Hagen-málinu.

Maðurinn sást á fjölda eftirlitsmyndavéla daginn sem Anne-Elisabeth hvarf frá heimili sínu, þann 31. október 2018 í nágrenni við Lørenskóg í Noregi, skammt frá heimili Hagen hjónanna.

Lögreglunni hefur ekki tekist að bera kennsl á manninn. Lýst er eftir manninum sem vitni en lögreglan hefur ekki upplýsingar um að hann hafi nokkuð með hvarf Anne-Elisabeth að gera að svo stöddu. Þetta segir Haris Hrenovica sem stýrir rannsókninni í samtali við norska ríkisútvarpið,NRK.

Á eftirlitsmyndavélum sést maðurinn gangandi eftir torgi í Lørensskógi, austur af Ósló.

Lögreglan hefur í höndunum um 6.000 klukkustundir af myndefni úr eftirlitsmyndavélum tengt málinu. Hrenovica segir það krefjandi verkefni fyrir lögregluna að fara í gegnum allt myndefnið ásamt því að tengja það við aðrar upplýsingar um hvarf Anne-Elisabeth.

Anne-Elisabeth Hagen hefur verið saknað í nærri tvö ár, en hún hvarf frá heimili sínu þann 31. október 2018. Eiginmaður hennar, auðkýfingurinn Tom Hagen var handtekinn í lok apríl. Hann var grunaður um að hafa orðið eiginkonu sinni að bana eða átt hlutdeild að dauða hennar. Hann hefur verið laus úr varðhaldi síðan í byrjun maí og neitar sök. Málið er enn í rannsókn hjá lögreglunni í Noregi.