Mávar eru ekki að hegða sér undarlega að mati fuglafræðings, en þeir hafa verið til mikillar umræðu síðustu daga. Margir virðast vera á þeirri skoðun að hegðun þeirra um þessar mundir sé fordæmalaus og telja þá vera óvenju árásargjarna.

Mávaárásum í garð barna og annars fólks á höfuðborgarsvæðinu hefur verið lýst á samfélagsmiðlum, og tala sumir um að ekki sé svefnfriður vegna þeirra. Einhverjir hafa lýst ástandinu sem „mávafaraldri“ eða „mávaplágu“ og hefur því verið líkt við kvikmyndina frægu The Birds.

Gunnar Þór Hallgrímsson prófessor í dýrafræði við Háskóla Íslands, segir að ekki sé hægt að tala um faraldur í þessum efnum, og veit ekki til neinna atvika þar sem hegðun mávs sé undarleg.

Umræða sem kemur reglulega upp

„Ég er ekki mjög  gamall, en síðan ég var unglingur og byrjaði að fylgjast vel með fuglum hef ég tekið eftir því að þetta er umræða sem blossar reglulega upp. Hún kemur og fer,“ segir Gunnar.

Ástæðan fyrir þessari hegðun mávsins er að öllum líkindum gott varp, segir Gunnar, sem er sérfróður um sílamávinn, sem er fuglinn sem nú stríðir fólki. Hann segir hann einungis sýna árásarhegðun sem sé tengd varpinu þeirra.

„Þegar varp gengur vel eru þeir lengur í varpinu, og það er staðan núna,“ segir hann og bætir við, „Þeir steypa sér ekki á fólk nema þeir séu að verja eitthvað.“

Það sem sé í gangi er að það er árekstur á milli fólks og varps mávana. Þeir séu með hreiður nálægt mannabyggðum og jafnvel á húsþökum. Gunnar tekur síðan fram að árekstur manna og varps máva væri allt annað en mávar á vappi um borgina, sem eru gjarnan að leita sér að fæði.

Gunnar Þór Hallgrímsson prófessor í dýrafræði við Háskóla Íslands
Fréttablaðið/Aðsend

„Hræðilega léleg aðferð

Aðspurður út í hvað sé hægt að gera í málinu segir Gunnar að það þurfi að gera mannabyggðir að óaðlaðandi stað fyrir mávana, sem verði til þess að þeir verpi annars staðar.

Þá segir hann það vera „ranga hugmyndafræði“ að stinga á egg mávana. Á fundi bæjarráðs Garðabæjar hafði slík hugmynd komið upp, en Náttúrufræðistofnun veitti bænum ekki leyfi til að fara í slíkar aðgerðir.

„Þetta er hræðilega léleg aðferð“ segir Gunnar sem segir eggjastungur myndu hvorki fæla mávana frá varpstaðnum, eða fækka stofninum að einhverju viti. „Þetta er mjög óraunhæf aðgerð til að fækka stofninum. Þetta þyrfti að vara alveg svakalega umfangsmikið,“ segir hann.

Að sögn Gunnars þarf að gera mannabyggðir óaðlaðandi fyrir mávana frekar en að stinga á egg þeirra.
Fréttablaðið/Ernir