Evrópski bólusetningarpassinn tók gildi í gær og er þar ríkjum Evrópusambandsins gert að taka gild þau fjögur bóluefni sem hafa verið samþykkt af Lyfjastofnunar Evrópu (EMA).
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) og COVAX, samstarf ríkja um fjármögnun og dreifingu bóluefnis, lýsa áhyggjum yfir því að önnur bóluefni sem þau hafi samþykkt séu ekki tekin gild.
Lyfjastofnun Evrópu hefur samþykkt fjögur bóluefni, Pfizer, Moderna, Vaxzevria frá AstraZeneca og Janssen. Meðal þeirra bóluefna sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur samþykkt en ekki Lyfjastofnunin er Covishield frá AstraZeneca sem hefur verið mikið notuð í fátækari ríkjum heims.
Forsvarsmenn alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og COVAX segja þetta búa til enn meiri skilnað milli ríkra og fátækra þegar ferðafrelsi er að aukast á ný. Það ýti auk þess undir fordóma gegn bóluefnum sem geti leitt til þess að fólk veigri sér við að taka þau.
Níu af þeim 27 löndum sem taka þátt í bólusetningarvottorði Evrópusambandsins hafa gefið út að þau muni taka bóluefnið Covishield gilt. Þau eru Ísland, Sviss, Austurríki, Þýskaland, Slóvenía, Grikkland, Írland, Eistland og Spánn.
Heimildir BBC herma að Indland muni ekki taka evrópska bólusetningarvottorðið gilt nema Evrópusambandið geri slíkt hið sama fyrir Covishield, sem er framleitt í Indlandi.
Sem stendur er Evrópska bólusetningarvottorðið hugsað til að auðvelda ferðalög Evrópubúa um Evrópu. Evrópubúar munu þó áfram geta ferðast án vottorðsins en þurfa þá að hafa neikvætt Covid-próf og/eða sæta sóttkví eftir löndum.