Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, telur mikilvægt að gerð verði allsherjarúttekt á tryggingamálum hér á landi. Eðlilegt sé að verkalýðshreyfingin og Neytendasamtökin standi fyrir slíkri úttekt.

Fram hefur komið að fimmfalt dýrara er að tryggja Renault Captur-bifreið hér á landi en í Bretlandi og Svíþjóð.

Í Fréttablaðinu í gær kom fram hjá Breka Karlssyni, formanni Neytendasamtakanna, að Samtökin hyggist láta gera allsherjarúttekt á tryggingamálum hér á landi og meðal annars bera saman lagaumhverfi hér á landi og annars staðar. Vonast samtökin eftir fjármögnun frá verkalýðshreyfingunni og ríkinu, en slík úttekt kostar allt að 15 milljónir, eigi hún að vera marktæk.

Hjálmar Sigurþórsson, framkvæmdastjóri trygginga hjá TM, segir íþyngjandi bótaumhverfi hér á landi skýra verðmun milli Íslands og annarra landa.

Ragnar Þór segir verkalýðsfélög hafa átt gott samstarf við Neytendasamtökin og reiknar með að svo verði áfram. Sér hann ekkert því til fyrirstöðu að forysta VR og annarra verkalýðsfélaga samþykki samstarf við Neytendasamtökin um þessa úttekt.

Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra neytendamála, segir mikilvægt að tryggja heilbrigt samkeppnisumhverfi á tryggingamarkaði sem öðrum. Hún segir sitt ráðuneyti vera með samning við Neytendasamtökin og skoða þurfi hvort úttekt af þessu tagi falli undir hann. Lilja útilokar ekki viðbótarframlag frá ríkinu vegna slíkrar úttektar. n