Um­boðs­maður Al­þingis, Tryggvi Gunnarsson, hefur nú lokið við frum­kvæðis­at­hugun á að­búnaði og að­stæðum fanga á Litla-Hrauni. Þetta kemur fram í bréfi sem um­boðs­maður sendir dóms­mála­ráð­herra, heil­brigðis­ráð­herra og fangelsis­mála­stjóra. Um­boðs­maður boðar jafn­framt heim­sókn í fangelsið.

Síðast­liðin ár hefur verið unnið að at­huguninni og beindist hún meðal annars að heil­brigðis­þjónustu fanga, og þá sér­stak­lega geð­heil­brigðis­þjónustu, og hvort hún væri í sam­ræmi við mann­réttinda­reglur. Hlé var gert á at­huguninni til að gefa stjórn­völdum tæki­færi til að gera úr­bætur.

Málið fellt niður

Þar sem úr­bætur hafa nú verið kynntar og lög um mál­efni fanga breytt, auk þess sem að mann­afli sem um­boðs­maður hefur til að sinna verk­efnum leyfi ekki að málinu verði sinnt svo ein­hverju nemi á næstu misserum, var á­kveðið að fella málið niður.

Að sögn um­boðs­manns var það ljóst út frá svörum og skýringum Fangelsis­mála­stofnunar og ráð­herra að breytingar yrðu gerðar og að stjórn­völd teldu að heil­brigðis­mál fanga væru ekki í nægi­lega góðum far­vegi.

„Þau við­fangs­efni sem at­hugunin beindist að munu hins vegar eftir því sem til­efni gefst til koma síðar til skoðunar um­boðs­manns á grund­velli OP­CAT-eftir­litsins,“ segir í bréfinu en OP­CAT-eftir­litið fer fram á grund­velli samnings Sam­einuðu þjóðanna gegn pyndingum og er í höndum um­boðs­manns.

„Til­koma eftir­litsins breytir því hins vegar ekki að ég tel mikil­vægt að um­boðs­maður Al­þingi geti á grund­velli frum­kvæðis­heimildar sinnar tekið ein­stök við­fangs­efni, þ.m.t. að því er varðar mál­efni fanga, til heild­stæðari at­hugunar en kostur er með ein­stökum heim­sóknum OP­CAT-eftir­litsins og skýrslu­gerð um þær,“ segir enn fremur.

Þá segir að starfs­menn um­boðs­manns muni fara í reglu­bundnar heim­sóknir í fangelsi landsins á grund­velli OP­CAT-eftir­litsins. Í októ­ber 2019 var farið í eftir­lits­heim­sókn í fangelsið Sogni og í janúar 2020 hafi verið farið í heim­sókn í fangelsið á Hólms­heiði. Heim­sókn í fangelsið á Litla-Hrauni sé þá á­ætluð í ár.

Bréf umboðsmanns í heild sinni má finna hér.