Búist er við að 600 kepp­endur muni taka þátt í al­þjóð­legu bjór­hlaupi RVK Brewing á laugar­daginn sem byrjar og endar í Naut­hóls­vík. Hlaupið fór fram í fyrsta sinn síðasta vetur og tókst vel til þrátt fyrir slag­viðri.

„Í fyrra voru um hundrað kepp­endur skráðir en síðan setti slæmt veður strik í reikninginn. Við vorum frekar seint á ferðinni, í októ­ber, en miðað við á­hugann á því hlaupi sáum við að grund­völlur væri fyrir enn stærri við­burði í ár,“ segir Einar Örn Stein­dórs­son, einn eig­enda RVK Brewing sem stendur fyrir við­burðinum.

Að hans sögn voru það ekki fasta­gestir brugg­hússins sem mættu til leiks heldur fyrst og fremst þaul­reyndir hlauparar.

„Það kom okkur tals­vert á ó­vart. Þarna mætti grjót­hart keppnis­fólk til leiks og við reiknum með því sama í ár. Veður­spáin lítur vel út og því reiknum við líka með að bjó­relskandi kepp­endur mæti til leiks og skokki vega­lengdina. Þeir virðast vera við­kvæmari fyrir veðri heldur en keppnis­fólkið,“ segir Einar Örn kíminn.

RVK Brewing leggur mikið í hlaupið því bruggaður verður sér­stakur bjór af til­efninu. „Hann heitir að sjálf­sögðu Keppnis og er ferskur lager sem ætti að henta vel til þess að vökva fólk á hlaupum.“

Hlaupið gengur þannig fyrir sig að hlaupnir eru 1,6 kíló­metrar og eru þrjár drykkjar­stöðvar á leiðinni þar sem boðið er upp á ís­lenskar veigar. Ljúka verður einum bjór á hverri stöð til þess að mega halda hlaupinu á­fram.

Helga Jóna, ríkjandi Íslandsmeistari kvenna í bjórhlaupi, er önnur frá vinstri.
Mynd/Helga Jóna Helgadóttir

Ríkjandi Íslandsmeistari skráð til leiks

Meðal skráðra til leiks í hlaupið er ríkjandi Ís­lands­meistari kvenna í bjór­hlaupi, Helga Jóna Jónas­dóttir. Hún hyggst verja titilinn með kjafti og klóm en ekki síður gera at­lögu að sigri í opnum flokki.

„Ég er enn fúl yfir því að hafa ekki unnið í fyrra. Ég var fyrst að þriðju og síðustu drykkjar­stöðinni en þá rakst ég á vegg og átti erfitt með að koma síðasta drykknum niður,“ segir Helga.

Hún missti því tvo kepp­endur fram úr sér undir lokin og segir það hafa verið sárt.

„Ég er búin að læra af reynslunni. Það kom mér á ó­vart hvað það var erfitt að spretta af stað eftir að hafa drukkið heilan bjór. Ég held að lykillinn sé að geta ropað al­menni­lega,“ segir Helga og hlær.