Lyfjastofnun og tollgæslusvið Skattsins tóku nýverið þátt í alþjóðlegri aðgerð á vegum Interpol og var lagt hald á þrjár milljónir eininga af ólöglegum og mögulega lífshættulegum lyfjum og lækningatækjum.

Áherslur Lyfjastofnunar og embættis Skattsins í aðgerðinni snéru að fölsuðum lyfjum í póstsendingum. Upp komu þrjú mál á meðan aðgerðinni stóð og voru þau öll áframsend til Interpol.

Frá þessu er greint á vef Lyfjastofnunar.

Aðgerðin sem ber nafnið Pangea fór fram dagana 23. til 30. júní síðastliðin og tóku 94 aðildarlönd Interpol þátt í henni.

Meðal þess sem Interpol gerði á meðan aðgerðinni stóð var að loka rúmlega fjögur þúsund vefsíðna sem buðu upp á ólögleg lyf og lækningatæki.

Viðskipti með ólögleg lyf á alheimsvísu eru ábótasöm, en Interpol áætlar að verðmæti þeirra nemi um 4,4 milljörðum Bandaríkjadala.