Lyfja­stofnun og Toll­gæslan tóku þátt í um­fangs­mikilli að­gerð Europol, Operation Shield III, þann 19. desember í fyrra. Það kemur fram í til­kynningu frá Lyfja­stofnun í dag en hér­lendis var meðal annars lagt hald á stera­tengd efni, stinningar­lyf, og sterk verkja­lyf eins og oxí­kontín.

Alls tóku tuttugu og átta ríki þátt í að­gerðinni sem stóð yfir frá apríl til októ­ber á síðasta ári, með sam­vinnu lög­reglu, toll­yfir­valda og lyfja­stofnana auk ýmissa fjöl­þjóð­legra stofnana. Toll­gæslan og Lyfja­stofnun tóku þátt í að­gerðinni hér­lendis og nutu að­stoðar tengsla­full­trúa Ís­lands hjá Europol.

Sígarettur, lyf og læknaáhöld.
Mynd/Europol

349 handteknir

Í til­kynningu Lyfja­stofnunar segir að Europol hafi stýrt al­þjóð­legu að­gerðinni Operation Shield III en hún beindist gegn ó­lög­legum lyfjum og stera­tengdum efnum.

Hald var lagt á lyf að and­virði rúm­lega 40 milljóna evra á heims­vísu, fimm­tíu og níu glæpa­hópar voru leystir upp, og tíu ó­lög­legum rann­sóknar­stofum lokað. Hér­lendis var meðal annars lagt hald á stera­tengd efni, stinningar­lyf, og sterk verkja­lyf eins og oxí­kontín.

Enn freista al­þjóð­leg glæpa­sam­tök þess að hagnast á CO­VID-19 far­aldrinum, en at­hyglin sem beinist að öllu sem honum tengist, gerir að verkum að á brattann er að sækja. Stjórn­völd sem buðu borgurum landa sinna ó­keypis bólu­setningu gerðu glæpa­mönnum t.d. ó­hægt um vik að koma sviknum efnum á fram­færi.

Nánari upp­lýsingar er að finna á vef Europol en þar kemur, meðal annars, fram að 349 hafi verið hand­teknir og tíu ó­lög­legum rann­sóknar­stofum lokað og að lög­reglan hafi af­vopnað um 59 skipu­lagða glæpa­hópa.

Nánar hér á vef Lyfja­stofnunar og Europol.

Lagt var hald á bæði lyf og áhöld í aðgerðinni.
Mynd/Europol