Lyfjastofnun hefur alls borist 57 tilkynningar um mögulegar aukaverkanir í kjölfar bólusetninga gegn Covid-19. Þar af eru sjö tilvik talin alvarleg en tilkynnt hefur verið um sex andlát í kjölfar bólusetninga. Þetta kemur fram á vef Stundarinnar.

Í þeim tilvikum sem teljast alvarleg er um að ræða aldraða einstaklinga sem glíma við undirliggjandi sjúkdóma. Enn þykir ekki sannað að einstaklingarnir sem um ræðir hafi veikst eða látist í tengslum við bólusetninguna.

Landlæknir, sóttvarnalæknir og forstjóri Lyfjastofnunar ákváðu þó í byrjun árs að rannsaka þau tilvik þar sem tilkynnt var um alvarlega aukaverkanir eða andlát. Óháðir aðilar voru fengnir til að fara gaumgæfilega yfir fimm alvarlegu tilvik í síðustu viku.

Rannsóknin er gerð af tveimur sérfróðum læknum á sviði öldrunar og verður henni hraðað eins og kostur er og er stefnt að því að frumniðurstöður liggi fyrir í næstu viku.

Tilgangur rannsóknarinnar er að meta hvort líklegt sé að þessi alvarlegu atvik tengist bólusetningunni eða hvort þau tengist undirliggjandi sjúkdómum. Embætti landlæknis segir ekkert benda til þess að beint orsakasamhengi sé þarna á milli eins og sakir standa.