Lyfja­stofnun Evrópu, EMA, hefur gefið það út að þau hafi ekki komist að niður­stöðu um hvort tengsl séu á milli bólu­setningar með bólu­efni AstraZene­ca og myndun blóð­tappa eða blæðinga­vanda­mála en þetta kemur fram í yfir­lýsingu stofnunarinnar til AFP frétta­stofunnar.

Marco Cavaleri, yfir­maður bólu­setningar­á­ætlunar hjá Lyfja­stofnun Evrópu, sagði í sam­tali við ítalska blaðið Il Messa­ag­gero að það væri ó­ljóst hvað valdi því að þeir sem fái bólu­efnið myndi blóð­tappa en engu að síður væru skýr tengsl þar á milli. Þá væri meiri hætta á meðal yngra fólks sem fengi bólu­efnið.

Í til­kynningu frá stofnuninni í dag kemur fram að málið sé enn til skoðunar en á­ætlað er að niður­stöðurnar verði til­kynntar á mið­viku­dag eða fimmtu­dag. „Við munum miðla upp­lýsingum og halda blaða­manna­fund um leið og at­huguninni er lokið,“ segir í til­kynningunni.

Orsakasamband ekki útilokað

Sér­fræðinga­nefnd EMA komst að þeirri niður­stöðu þann 18. mars síðast­liðinn að bólu­efnið væri virkt og að á­vinningurinn af bólu­setningu væri meiri en á­hættan. Það væri ekki sannað að tengsl væru milli bólu­setningar og myndun blóð­tappa en ekki væri hægt að úti­loka or­saka­sam­band þar á milli.

Fjöl­margar þjóðir hættu að nota bólu­efnið tíma­bundið eftir að til­kynnt var um al­var­legar auka­verkanir í kjöl­far bólu­setningar. Fyrir þann tíma hafði bólu­efnið aðal­lega verið notað hjá yngri aldurs­hópum en eftir að greint var frá niður­stöðu EMA fóru margar þjóðir að nota bólu­efnið að­eins hjá eldri ein­stak­lingum.