Lyfjastofnun Evrópu, EMA, hefur gefið það út að þau hafi ekki komist að niðurstöðu um hvort tengsl séu á milli bólusetningar með bóluefni AstraZeneca og myndun blóðtappa eða blæðingavandamála en þetta kemur fram í yfirlýsingu stofnunarinnar til AFP fréttastofunnar.
Marco Cavaleri, yfirmaður bólusetningaráætlunar hjá Lyfjastofnun Evrópu, sagði í samtali við ítalska blaðið Il Messaaggero að það væri óljóst hvað valdi því að þeir sem fái bóluefnið myndi blóðtappa en engu að síður væru skýr tengsl þar á milli. Þá væri meiri hætta á meðal yngra fólks sem fengi bóluefnið.
Í tilkynningu frá stofnuninni í dag kemur fram að málið sé enn til skoðunar en áætlað er að niðurstöðurnar verði tilkynntar á miðvikudag eða fimmtudag. „Við munum miðla upplýsingum og halda blaðamannafund um leið og athuguninni er lokið,“ segir í tilkynningunni.
Orsakasamband ekki útilokað
Sérfræðinganefnd EMA komst að þeirri niðurstöðu þann 18. mars síðastliðinn að bóluefnið væri virkt og að ávinningurinn af bólusetningu væri meiri en áhættan. Það væri ekki sannað að tengsl væru milli bólusetningar og myndun blóðtappa en ekki væri hægt að útiloka orsakasamband þar á milli.
Fjölmargar þjóðir hættu að nota bóluefnið tímabundið eftir að tilkynnt var um alvarlegar aukaverkanir í kjölfar bólusetningar. Fyrir þann tíma hafði bóluefnið aðallega verið notað hjá yngri aldurshópum en eftir að greint var frá niðurstöðu EMA fóru margar þjóðir að nota bóluefnið aðeins hjá eldri einstaklingum.
#BREAKING European Medicines Agency (#EMA) has 'not yet reached a conclusion' on AstraZeneca Covid vaccine/blood clot link, review 'currently ongoing': statement pic.twitter.com/ji40OmRNky
— AFP News Agency (@AFP) April 6, 2021