Lyfjastofnun Evrópu hefur ákveðið að mæla með skilyrtu markaðsleyfi bóluefnis Moderna. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins á nú eftir að veita leyfið, sem er fyrst og fremst forgangsatriði, og búist við að það verði gert innan fáeinna klukkustunda. Þýski miðillinn Spiegel greinir frá þessu.

Lyfjastofnun Evrópu ákvað að mæla með bóluefninu á fundi sínum í morgun. Stofnunin hafði fundað um bóluefnið síðasta mánudag en ákvað að fresta ákvörðuninni til dagsins í dag því enn átti eftir að fara yfir viss atriði í matinu.

Þegar það leyfið liggur fyrir verður hægt að hefja bólusetningar með bóluefninu. Moderna hefur þó enn ekki hafið afhendingu á því en búist er við að fyrstu skammtar efnisins erði afhentir á næstu dögum eða í næstu viku.

Lyfjastofnun Íslands mun svo þurfa að veita bóluefninu leyfi á Íslandi áður en hægt er að taka það í notkun hér. Forstjóri Lyfjastofnunar sagði í samtali við Fréttablaðið í dag að það yrði gert strax í dag. Búið sé að undirbúa það ferli og stofnunin tilbúin að ganga beint í málið um leið og formlegt leyfi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins liggur fyrir.

Ísland mun fá um eitt þúsund skammta við fyrstu afhendingu bóluefnisins og svo jafnstóran skammt á tveggja vikna fresti. Samtals eiga tíu þúsund skammtar bóluefnisins að hafa borist til landsins við lok marsmánaðar.