Ein tilkynning hefur borist Lyfjastofnun vegna gruns um aukaverkanir eftir bólusetningu gegn Covid-19 í aldurshópnum 5 til 11 ára.

Þetta kemur fram í svari Lyfjastofnunar við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Í svarinu segir tilkynningin flokkist ekki sem alvarleg aukaverkun. Þá sé ekki hægt að gefa upp frekari upplýsingar um málið að svo stöddu þar sem tilkynningin gæti verið rekjanleg til einstaklings.

Bólusetningar barna á aldrinum 5 til 11 ára hófust í síðustu viku en í gær hófst átak bólusetningar fyrir þennan hóp á höfuðborgarsvæðinu í Laugardalshöll.

Um 1200 börn í þessum aldurshópi þáðu sinn fyrsta skammt af bóluefni gegn Covid-19 í gær samkvæmt heimildum mbl.is.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sagði í samtali við mbl.is að mætingin hafi verið langt umfram væntingar heilbrigðisstarfsfólks sem hafði einungis búist við um 500 börnum.